Viðskipti innlent

Stjórnvöld geri ekki sömu mistökin og í síðustu niðursveiflu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
SA hvetja til meiri fjárfestinga í uppbyggingu innviða.
SA hvetja til meiri fjárfestinga í uppbyggingu innviða. Fréttablaðið/Auðunn
Samtök atvinnulífsins (SA) telja að nú séu kjöraðstæður til þess að stjórnvöld ráðist í uppbyggingu innviða. SA mæla sérstaklega með því að hið opinbera fari í samstarfsverkefni með einkaaðilum þegar kemur að stórum framkvæmdum.

„Nú þegar hægja tekur á í hagkerfinu er kjörið tækifæri til að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi. Í síðustu niðursveiflu voru innviðir látnir sitja á hakanum og mikilvægt er að stjórnvöld geri ekki sömu mistök heldur spyrni gegn niðursveiflunni með auknum innviðafjárfestingum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Hann segir að SA fagni áformum stjórnvalda um að heimilt verði að bjóða tilteknar framkvæmdir út sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila. Reynslan af byggingu Hvalfjarðarganga og sambærilegum verkefnum erlendis sýni svart á hvítu að slíkt samstarf sé af hinu góða.

„Þegar stjórnvöld og einkaaðilar deila ábyrgðinni og áhættunni af uppbyggingu, rekstri og viðhaldi samgönguinnviða, svo dæmi sé tekið, er hægt að ná fram því besta úr báðum aðilum sem skilar sér í betri áætlanagerð, betra viðhaldi og bættri þjónustu – öllum til hagsbóta,“ segir Halldór.

Samtökin birtu í gær grein þar sem fjallað er um uppbyggingu innviða. Þar segir að þrátt fyrir að stjórnvöld hyggist verja auknum fjármunum til samgönguframkvæmda á komandi árum dugi það skammt til að mæta uppsafnaðri áætlaðri þörf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×