Viðskipti innlent

Hagnaður Arion banka dróst saman

Sylvía Hall skrifar
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni. Fréttablaðið/Stefán
Arion banki hagnaðist um milljarð minna á öðrum ársfjórðungi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Nam hagnaður bankans 2,1 milljarði króna samanborið við 3,1 milljarða í fyrra.

Í fréttatilkynningu kemur fram að arðsemi eigin fjár var 4,3% á öðrum ársfjórðungi 2019 samanborið við 5,9% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,6% á öðrum ársfjórðungi 2019 samanborið við 7,2% á sama tímabili árið 2018.

Heildareignir bankans námu 1.233 milljörðum króna í lok júní á þessu ári samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok síðasta árs. Þá nam eigið fé 195 milljörðum króna samanborið við 201 milljarð í árslok 2018.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir afkomuna ekki nógu góða. Það sé engu að síður jákvætt að grunnstarfsemi bankans þróist í rétta átt og hreinar vaxtatekjur haldi áfram að vaxa.

„Þóknanatekjur eru áfram stöðugar og afkoma af tryggingastarfsemi Varðar, dótturfélags bankans, var góð á tímabilinu. Kostnaður í starfsemi bankans er að þróast með réttum hætti en eitt af verkefnum okkar á næstunni verður að gera enn betur í þeim efnum,“ er haft eftir Benedikt í fréttatilkynningu. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×