Sport

Eygló Ósk á HM í sundi í nótt: „Þetta hefði alveg mátt vera hraðara“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir á ferðinni í sundinu í nótt.
Eygló Ósk Gústafsdóttir á ferðinni í sundinu í nótt. Mynd/SSÍ/Simone Castrovillari

Íslenska sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir lauk keppni í nótt á heimsmeistaramótinu í 50 metra lauk í Gwangju í Suður-Kóreu.

Eygló Ósk Gústafsdóttir synti þá 50 metra baksund á 29,82 sekúndum sem er um hálfri sekúndu hægara en hún synti á Smáþjóðaleikunum í maí.

Fyrir á Eygló best í greininni sund upp á 28,61 sekúndur frá því árið 2014 en hefur undanfarin ár verið að glíma við meiðsli í baki sem hafa haldið aftur af henni.

Þetta nægði Eygló Ósk ekki til að komast áfram í milliriðla. Hún endaði í 29. sæti í undanriðlinum en sú síðasta inn í milliriðla synti á 28,29 sekúndum.

Eygló átti gott start í morgun og náði ágætum takti í sundinu, en eins og hún sagði sjálf við fréttaritara Sundsambands Íslands eftir sundið: „Þetta hefði alveg mátt vera hraðara".

Aðspurð um áætlanir sínar svaraði hún því glaðbeitt að hún væri staðráðin í að komast á ÓL í Tókýó eftir ár, nú lægi fyrir að þétta teymið í kringum hana fá inn styrktarþjálfara til starfa og einbeita sér að því verkefni.

Eygló segist enn þá finna fyrir meiðslunum í bakinu en þau væru orðin viðráðanleg. Hún væri með sjúkraþjálfara sem hefði gert kraftaverk.

Eftir stutt frí í ágúst með vinum og fjölskyldu hefst lokaundirbúningurinn fyrir ÓL 2020.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.