Handbolti

Formaður HSÍ: Málið strandar ekki á þarfagreiningu frá HSÍ

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og Axel Stefánsson, þjálfari kvennalandsliðsins.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og Axel Stefánsson, þjálfari kvennalandsliðsins. vísir/stefán
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, er ekkert allt of sáttur við svör mennta- og menningarmálaráðherra í Reykjavík síðdegis varðandi framgang nýrrar þjóðarhallar í innanhúsíþróttum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í þættinum að sérsamböndin þyrftu að vinna þarfagreiningu, ræða svo við viðkomandi sveitarfélag og vinna svo umsókn í gegnum ÍSÍ sem síðan yrði send ráðuneytinu. Ráðuneytið gæti ekki gert neitt fyrr en sú umsókn væri komin.

HSÍ er ekki að fara að byggja þjóðarleikvang

„Við höfum verið að þrýsta á þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir og það liggur fyrir að við erum ekki að fara að byggja neitt hús sjálfir. Það liggur alveg fyrir hvaða kröfur liggja til þeirra íþróttahúsa sem þurfa að hýsa landsleiki. Það hefur verið reynt að vinna að umbótum á Laugardalshöll til þess að uppfylla þær kröfur,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.

„Að halda því fram að málið strandi á því að við höfum ekki gert þarfagreiningu er alrangt. Við höfum verið að kalla eftir því við stjórnvöld að fá svör við því hvernig þau vilja koma að byggingu nýrrar þjóðarhallar. Til að hægt sé að koma vinnu við nýtt hús af stað þá þarf að vita hug ríkisvaldsins en ekki að ríkisvaldið skýli sér á bak við reglugerð sem þeir sömdu eftir að okkar beiðni kom inn. Þetta snýst ekki um samþykki fyrir húsi heldur hvort ríkið sé til í að koma að þessu máli. Þannig vinnur maður sig áfram. Ef ríkisvaldið segir nei þá er málið líklega alveg stopp.“

Úr landsleik í Laugardalshöll.vísir/vilhelm
Formaðurinn segir að biðin eftir svörum frá ríkisvaldinu um þetta málefni sé að verða ansi löng.

„Við höfum fundað og fengið jákvæð viðbrögð en aldrei fengið nein bein svör. Ég hef átt góðan og jákvæðan fund með ráðherra og veit að hún er jákvæð gagnvart verkefninu. Til að geta unnið þessa vinnu áfram þá þurfum við að fá skýrari svör. Við erum ekki að fara í neinn slag út af þessu. Þetta er bara verkefni sem þarf að vinna saman og snýst ekki um skort á þarfagreiningu frá okkur. Hún liggur fyrir í reglugerðum alþjóða handknattleikssambandanna. Fólki er kunnugt um þessar kröfur sem eru svo alltaf að aukast,“ segir formaður HSÍ.

Tíminn að renna út

Íslandsmeistarar Selfoss fengu ekki þátttökurétt í Meistaradeildinni næsta vetur þar sem ekki er til hús á Íslandi sem tekur 2.500 áhorfendur. Árið 2021 fá engin lið þátttökurétt í keppninni nema þau séu með hús sem tekur 4.000 manns í sæti.

„Þetta er þróunin. Kröfurnar eru að aukast og Laugardalshöllin hefur einfaldlega ekki nægilega stóran gólfflöt til þess að uppfylla kröfur alþjóðasambanda. Við óttumst því að fá mjög fljótlega bank í öxlina varðandi okkar framtíðarmál og þá þurfum við að geta komið með svör.“


Tengdar fréttir

Utan vallar: Þjóðarskömmin í Laugardalnum

Það virðist ekki lengur vera spurning hvort heldur hvenær landsliðin okkar í stærstu boltaíþróttunum munu þurfa að spila heimaleiki sína erlendis. Sá dagur er fyrsti heimaleikur Íslands í stórkeppni fer fram á erlendum vettvangi verður svartur dagur í íslenskri íþróttasögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×