Viðskipti innlent

Starfsmönnum Íslandspósts tilkynnt um yfirvofandi uppsagnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Uppsagnir hjá Íslandspósti eiga að beinast að millistjórnendum á skrifstofu en ekki starfsfólki á pósthúsum eða í dreifikerfinu.
Uppsagnir hjá Íslandspósti eiga að beinast að millistjórnendum á skrifstofu en ekki starfsfólki á pósthúsum eða í dreifikerfinu. Vísir/Vilhelm
Birgir Jónsson, nýr forstjóri Íslandspóst, sendi starfsmönnum fyrirtækisins póst í morgun og boðaði uppsagnir á næstunni. Umtalsverður hluti millistjórnenda og þeirra sem vinna á skrifstofum Íslandspósts verður látinn fara og eiga uppsagnirnar að hefjast á næstu vikum.

Íslandspóstur hefur átt í verulegum fjárhagskröggum að undanförnum og óskaði stjórn fyrirtækisins eftir 1,5 milljarða neyðarlánveitingu frá ríkinu. Tilkynnt var um að framkvæmdastjórum yrði fækkað úr fimm í þrjá og að fyrirtækið flytti í ódýrara húsnæði í síðustu viku.

Í samtali við Vísi segir Birgir að yfirbygging fyrirtækisins sé of þung og launakostnaður í stjórnunarlaginu úr takti við raunverulegar aðstæður í rekstrinum. Hann hafi sent öllum starfsmönnum póst um næsta fasa aðhaldsaðgerða svo að þeir þyrftu ekki að lesa um þær fyrst í fjölmiðlum. Í póstinum segir hann að stefnt sé að því að ljúka uppsögnunum í sumar.

Spurður út í umfang uppsagnanna segist Birgir ekki geta gefið upp nákvæma tölu.

„Þetta er auðvitað hlutfallslega umtalsvert hlutfall af þeim sem vinna hérna á skrifstofunni, millistjórnendur og aðrir. Ég er ekki að tala um fólk á pósthúsunum eða dreifikerfinu. Ég er að tala um yfirbygginguna,“ segir hann.

Ráðist verður í frekari hagræðingaraðgerðir innan fyrirtækisins en Birgir segir að þær eigi ekki að skerða þjónustu fyrirtækisins eða koma niður á viðskiptavinum.


Tengdar fréttir

Ganga þurfi lengra í hagræðingu á starfsemi Íslandspósts

Ríkisendurskoðandi gagnrýnir áætlanagerð fyrirtækisins sem hafi einkennst af of mikilli bjartsýni og skorti á samráði við stjórnvöld. Stjórnendur fyrirtækisins hafi hvorki brugðist nægilega hratt við vandanum né nægilega markvisst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×