Viðskipti innlent

Heyrði fyrst af söluhugleiðingum fjármálaráðherra í fjölmiðlum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segist ekki hafa miklar skoðanir á hugsanlegri sölu ríkisins á rekstri Íslandspósts. Það mikilvægasta sé að koma rekstrinum í rétt horf.
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segist ekki hafa miklar skoðanir á hugsanlegri sölu ríkisins á rekstri Íslandspósts. Það mikilvægasta sé að koma rekstrinum í rétt horf. Íslandspóstur
„Nei, ég get nú ekki sagt það beint,“ segir Birgir Jónsson sem tók við starfi forstjóra Íslandspósts fyrir þremur vikum þegar hann var spurður hvort fjármálaráðherra hefði viðrað hugmyndir sínar um sölu á rekstri Íslandspósts þegar búið væri að koma fjárhag fyrirtækisins í rétt horf.

Sjá nánar: Íslandspóstur verði seldur við fyrsta tækifæri segir ráðherra

Birgir segir í samtali við fréttastofu ekki vera í beinu sambandi við fjármálaráðherra, hann hafi einfaldlega verið ráðinn af stjórn Íslandspósts. „Ég hef ekki einu sinni hitt hann,“ bætir Birgir við.

Inntur eftir viðbrögðum hins nýja forstjóra vegna mögulegrar sölu á rekstrinum segist Birgir ekki hafa miklar skoðanir á eignarhaldi Íslandspósts.

„Ég hef enga skoðun á því hver á þetta fyrirtæki, það er alltaf það sama í öllum rekstri; ef þú ert með ánægða viðskiptavini og skilar arði, það er mitt starf,“ útskýrir Birgir.

Fyrirtækið hafi blandast stjórnmálunum um of

„Mér finnst einhvern veginn fyrirtækið sjálft hafa blandað ofboðslega mikið inn í pólitísk mál. Eins og ég kem inn í þetta, ég er náttúrulega bara fagstjórnandi, ég er atvinnustjórnandi þannig að ég hef engan pólitískan bakgrunn eða tengingar. Ég er bara ráðinn hingað til þess að leiðrétta reksturinn og snúa honum við“.

Í samtali við fréttablaðið sagði fjármálaráðherra að þegar umbætur á lagaumgjörð og nauðsynlegar breytingar á rekstri Íslandspósts færu að skila árangri sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji reksturinn.

Í sama viðtali kvaðst fjármálaráðherra ekki hafa náð að fara yfir úttekt ríkisendurskoðunar á rekstri Íslandspósts sem var birt í gær.

Birgir segir í samtali við fréttastofu nota úttektina sem ákveðinn leiðarvísi fyrir endurskipulagningu fyrirtækisins. Það sé gríðarlega mikilvægt að hafa fengið hana í hendurnar því tillögur ríkisendurskoðanda til umbóta falli vel að hans eigin.

Sjá nánar: Upplifir skýrslu ríkisendurskoðunar ekki sem áfellisdóm

Hann segir að hans helsta keppikefli sé að koma rekstri Íslandspósts í rétt horf og helst þannig að ekkert þyki gagnrýnivert.

„Hann sé þá með þeim hætti að það sé ekkert hægt að gagnrýna hann út af einhverri yfirbyggingu, kostnaði, bruðli, forstjórabílum eða hvað það er,“ segir Birgir sem ítrekar að hann hafi ekki miklar skoðanir á eignarhaldinu.

 

Ímynd fólks sú að verið sé að moka í botnlausa hít

„Enga sko, það er alltaf bara sama markmiðið, það er bara að vera með eins flottan rekstur og hagkvæman og ef ríkið vill selja hann þá bara að við fáum nógu mikið fé fyrir það af því reksturinn er góður.“

Hann segir að það sé mikilvægt að gera breytingar því hans tilfinning sé sú að ímynd fólks sé sú að verið sé að moka í botlausa hít.

„Mín nálgun á þetta, þetta er bara reikningsdæmi og ef ríkið vill halda úti þessari þjónustu, þessari grunnþjónustu í öllum löndum; að það sé einhvers konar póstþjónusta á milli íbúa þá kostar það eitthvað og það þarf auðvitað bara að reikna það út hvað það er og svo fer það bara í eitthvað útboð, það eru bara einhverjir aðilar sem geta bara framkvæmt þá þjónustu.“


Tengdar fréttir

Ganga þurfi lengra í hagræðingu á starfsemi Íslandspósts

Ríkisendurskoðandi gagnrýnir áætlanagerð fyrirtækisins sem hafi einkennst af of mikilli bjartsýni og skorti á samráði við stjórnvöld. Stjórnendur fyrirtækisins hafi hvorki brugðist nægilega hratt við vandanum né nægilega markvisst.

Segja mörgum spurningum um Íslandspóst enn ósvarað

Samkeppniseftirlitið og fyrrverandi og núverandi forstjórar Íslandspósts verða kallaðir fyrir stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þar sem mörgum spurningum er ennþá ósvarað um rekstrarvanda Íslandspósts að sögn formanns nefndarinnar. Nefndarmaður í fjárlaganefnd segir enn fremur að Póst-og fjarskiptastofnun verði einnig kölluð fyrir nefndina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×