Viðskipti

Sesselía Birgisdóttir ráðin til Íslandspósts

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts.
Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts. Mynd/aðsend
Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts. Hún hefur störf í lok sumars að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslandspósti.

Sesselja hefur starfað sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advanía síðan 2016 og starfaði áður sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði markaðsmála. Sesselía er með tvær mastersgráður frá Háskólanum í Lundi, annars vegar í stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingarmiðlun og breytingar og hins vegar í alþjóða markaðsfræðum og vörumerkjastjórnun.

„Ég er mjög spennt fyrir því að taka þátt í þessu skemmtilega og krefjandi verkefni, Íslandspóstur er flott fyrirtæki sem þjónustar alla landsmenn en stendur á miklum tímamótum. Ég hlakka mikið til að taka þátt í öllum þeim stóru verkefnum sem framundan eru og taka þátt í að marka skýra stefnu sem skilar árangri,“ er haft eftir Sesselju í fréttatilkynningunni.

Í gær fengu starfsmenn fyrirtækisins tölvupóst þar sem boðaðar voru uppsagnir á næstunni. Umtalsverður hluti millistjórnenda og þeirra sem vinna á skrifstofum Íslandspósts verður látinn fara og eiga uppsagnirnar að hefjast á næstu vikum. Íslandspóstur hefur átt í verulegum fjárhagskröggum að undanförnum og óskaði stjórn fyrirtækisins eftir 1,5 milljarða neyðarlánveitingu frá ríkinu.

Í tilkynningunni um ráðningu Sesselíu er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Íslandspósts, að endurskipulagningarferli standi yfir hjá Íslandspósti, „Þar sem megin áherslan [sé] fyrst um sinn að ná stjórn á kostnaði.“ Stóra verkefnið sé aftur á móti að marka framtíðarstefnu „og finna fyrirtækinu stað í breyttu viðskiptaumhverfi og því er Sesselía mjög mikilvæg viðbót í hópinn enda sterkur og reyndur leiðtogi á þessu sviði,“ að sögn Birgis. 


Tengdar fréttir

Segja mörgum spurningum um Íslandspóst enn ósvarað

Samkeppniseftirlitið og fyrrverandi og núverandi forstjórar Íslandspósts verða kallaðir fyrir stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þar sem mörgum spurningum er ennþá ósvarað um rekstrarvanda Íslandspósts að sögn formanns nefndarinnar. Nefndarmaður í fjárlaganefnd segir enn fremur að Póst-og fjarskiptastofnun verði einnig kölluð fyrir nefndina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×