Viðskipti innlent

Grænkerar fagna endurkomu Oatly barista

Sylvía Hall skrifar
Þessi mynd birtist á hópnum Vegan Ísland í dag, mörgum til mikillar gleði.
Þessi mynd birtist á hópnum Vegan Ísland í dag, mörgum til mikillar gleði. Facebook
Mynd á Facebook-hópnum Vegan Ísland sem sýndi stútfullar hillur af Oatly barista haframjólk í Nettó á Granda fékk góðar undirtektir í dag. Það er kannski engin furða þar sem mikill skortur hefur verið á umræddri mjólk í þónokkurn tíma.

Oatly barista er í miklum metum hjá grænkerum landsins en mjólkin þykir vera ein sú besta í hópi mjólkur sem ekki er úr dýraafurðum. Kaffibarþjónar landsins bera henni einnig vel söguna en líkt og nafnið gefur til kynna er hægt að freyða hana í kaffidrykki og var hún í grunninn hugsuð til þess.

Í desember á síðasta ári sendu framleiðendur Oatly frá sér tilkynningu þar sem fram kom að ekki væri hægt að anna eftirspurn og því þyrfti að forgangsraða vinsælli vörum í framleiðslu. Skorturinn á mjólkinni fór illa í marga aðdáendur og grínuðust margir með að selja sínar fernur fyrir tugi þúsunda.

Þegar Vegan búðin fékk svo takmarkað magn af mjólkinn í febrúar máttu viðskiptavinir aðeins kaupa fjóra lítra, það er fjórar fernur, svo flestir gætu fengið að njóta.





Í samtali við fréttastofu sagði starfsmaður Nettó að mjólkin hefði selst vel í dag. Það væri augljóst að mikil aðsókn væri í mjólkina en grænkerar þurfa ekki að örvænta því töluvert magn er enn til.


Tengdar fréttir

Haframjólk uppseld

Framleiðendur Oatly-haframjólkurvara hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir útskýra að þeir geti ekki annað eftirspurn eftir vörum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×