Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Víkingur 1-0 │ Brandur tryggði FH fyrsta deildarsigurinn síðan 20. maí

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Brandur skoraði markið sem skildi liðin að.
Brandur skoraði markið sem skildi liðin að. vísir/daníel þór
FH hafði betur gegn Víking í kvöld, 1-0. Langþráður sigur Hafnfirðinga sem höfðu ekki unnið deildarleik síðan 20 maí. Víkingar eru nú í fallsæti. 

Fyrri hálfleikurinn var bragðdaufur og lítið um færi. Fyrsta alvöru færi leiksins kom undir lok fyrri hálfleiks en þar voru gestirnir á ferð. Guðmundur Andri vann boltann snyrtilega á miðjunni og sendi inn á Kwame Quee sem komst einn i gegn. Dauðafæri fyrir Víkinga en Daði Freyr Arnarsson bjargaði FH-ingum með góðri markvörslu.

Heimamenn fengu eitt hálffæri á lokamínútu fyrri hálfleiks. Boltinn datt fyrir fætur Péturs Viðarssonar, inní teig gestanna, skotið ekki nógu gott hjá Pétri og lítil hætta á ferð.

Síðari hálfleikurinn var lítið skárri, liðin áttu sína spretti til skiptis en sköpuðu sér lítið sem ekkert af opnum færum. Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum fengum heimamenn aukaspyrnu á frábærum stað, rétt utan teigs vinstra megin. Aukaspyrnan var umdeild og gestirnir úr Víkinni ekki sáttir með þennan dóm. 

Brandur Olsen tók spyrnuna og skoraði fyrsta og eina mark leiksins. Frábær spyrna yfir vegginn og í nær hornið.  Víkingarnir sóttu stíft eftir markið og freistuðu þess að jafna leikinn sem tókst ekki og FH fagnaði innilega langþráðum sigri, lokatölur í Kaplakrika 1-0. 

Af hverju vann FH? 

Þetta var 50/50 leikur sem gat dottið á báða vegu. FH-ingar kannski örlítið hættulegri en þeir skoruðu virkilega gott mark sem skilaði þeim sigrinum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmundur Kristjánsson var frábær í vörn FH, það var alveg sama hvað Víkingarnir reyndu að sækja á hann, hann vann öll einvígi. Jónatan Ingi Jónsson, Brynjar Ásgeir Guðmundson, Björn Daníel Sverrisson og svo markaskorarinn Brandur Olsen, áttu allir fínan leik í dag. 

Kári Árnason átti frábæra innkomu í sínum fyrsta leik, hann og Sölvi Geir voru ótrúlega þéttir í vörninni. Guðmundur Andri Tryggvason, Erlingur Andrason og Dofri Snorrason, allir með afbragðs leik í liði Víkinga. 

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst hjá báðum liðum að skapa sér opin færi. Liðin voru að koma sér í hálffæri en loka sendingar og skot klikkuðu ítrekað. Það má þó nefna að varnarvinnan hjá báðum liðum stóð upp úr í leiknum svo erfitt var að komast í almennileg færi. Enn það vantaði aðeins uppá sjálfstraustið hjá sóknarmönnum að klára færin. 

Hvað er framundan? 

FH fer til Vestmannaeyja í næstu umferð þar sem þeir mæta botnliðinu, ÍBV, enn Víkingarnir fá Fylki í heimsókn. 

Arnar Gunnlaugssonvísir/daníel þór
Arnar Gunnlaugs: Við vorum frábærir í kvöld

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var svekktur með lokatölur eftir fína frammistöðu sinna manna í kvöld

„Ef maður á að tapa fótboltaleik þá er það eftir svona leik. Við vorum frábærir í kvöld“ sagði Arnar

„Við fengum fullt af færum og hefðum getað spilað annan leik núna á meðan FH-ingar eru að fagna eins og heimsmeistarar. Þetta var góður fótboltaleikur fannst mér, hraður og skemmtilegur. Við fengum góð færi til skora og vinna leikinn“ 

Eina mark leiksins kom beint úr aukaspyrnu en Arnar var ekki ángæður með aðdragandann að þessu marki. Hann telur að ekki hafi verið um brot að ræða enn það getur verið dýr dómur á þessum stað. 

„Mér fannst þetta rosalega soft brot enn Brandur er með gæði og getur töfrað svona fram úr skónum upp úr engu. Mér fannst þetta flott mark hjá honum og það ber að virða það“ sagði Arnar sem getur ekki annað en hrósað Brandi fyrir spyrnuna

„Mér fannst við bara mjög góðir, stundum bara taparu fótboltaleik og gerir í sjálfum sér ekkert rangt. Þú færð færi og nýtir ekki færin á meðan hitt liðið gerir það, svona er þetta bara“

Kári Árnason fór beint inní lið Víkinga og í sína stöðu við hlið Sölva Geirs. Arnar segir það áskorun fyrir Kára að koma inní þetta Víkings lið og hrósar honum fyrir frammistöðu sína í dag. 

„Hann var bara frábær, hann og Sölvi báðir. Þetta er „challenge“ fyrir Kára að koma inní liðið okkar, hann vill fá boltann og hann var að spila úr erfiðum aðstæðum í kvöld. Ég bara vænti mikils af honum í sumar“ sagði Arnar að lokum

 

Ólafur vill sjá FH-inga byggja ofan á frammistöðuna og úrslitin í kvöld.vísir/bára
Óli Kristjáns: Brandur gerir alltof lítið af þessu

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, er ánægður að fá að upplifa sigurtilfinninguna aftur

„Það er langt síðan við unnum leik í deildinni og hérna í Krikanum. Þetta er fín tilfinning sem kemur eftir svona leik, það er langt síðan við höfum upplifað hana og um að gera að njóta þess á meðan er“

Óli segir að hann hafi ekki verið í rónni fyrr en flautað var af enda verið mikil pressa á liðinu eftir heldur dapurt gengi. 

„Það er pressa á okkur, við höfum ekki verið að ná í úrslit. Þessi leikur var erfiður og það verður að hrósa Víkings liðinu, fótboltinn sem þeir eru að spila er erfiður, þeir hafa plan og eru ekki að mæta í leikinn til að verja stigið heldur mæta til að sækja þrjú stig. Það er mjög ánægjulegt að hafa unnið svona sterkt lið.“

„Það var stöðubarátta, og okkur fannst við kannski aðeins ofan á í fyrri hálfleik. Þeir vörðust vel, eru með sterka varnarlínu og nú er Kári kominn inn sem styrkir þá mikið“ sagði Óli og hrósar þar innkomu Kára Árnasonar sem reyndist þeim erfiður í kvöld

„Þetta var bara spurning um fyrsta markið, það er þessir sigrar sem maður er að leita eftir eins og þessi leikur að ná góðu marki þegar leikirnir eru lokaðir“

FH fékk aukaspyrnu rétt utan teigs þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Brandur Olsen tók spyrnuna og skoraði frábært mark fyrir FH. Óli hrósar Brandi og vonast eftir fleiri mörkum frá Færeyingnum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira