Viðskipti innlent

Stýrivextir lækka um 0,25 prósentustig

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Vísir/Vilhelm
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75%. Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Í yfirlýsingu segir að nýjustu upplýsingar um þróun efnahagsmála breyti ekki því mati á efnahagshorfum sem lá fyrir á síðasta fundi peningastefnunefndar. Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hafi verið í takt við maíspá Seðlabankans og áfram sé gert ráð fyrir samdrætti í þjóðarbúskapnum sem muni birtast frekar á komandi mánuðum.

„Kröftugri einkaneysla á fyrsta fjórðungi og leiðandi vísbendingar gætu þó bent til þess að undirliggjandi þróttur innlendrar eftirspurnar hafi verið meiri en talið var. Á móti eru horfur á að samdráttur í ferðaþjónustu verði meiri,“ segir í yfirlýsingu.

Þá hafi verðbólga enn sem komið er verið í samræmi við síðustu spá Seðlabankans. „[…] En samkvæmt spánni hefur hún náð hámarki og mun hjaðna í átt að markmiði þegar líður á árið. Frekari lækkun gengis krónunnar gæti þó sett strik í þann reikning. Verðbólguvæntingar hafa lækkað frá því sem þær voru í kringum síðasta fund nefndarinnar. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist á ný.“

Peningastefnan muni á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×