Viðskipti innlent

Krónan tekur upp sykur­reyr­poka og hættir með smá­poka úr plasti

Sylvía Hall skrifar
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdarstjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdarstjóri Krónunnar.
Frá og með 1. júní munu allar verslanir Krónunnar hætta að selja hefðbundna plastburðarpoka í verslunum sínum og í þeirra stað er nú boðið upp á burðarpoka úr sykurreyr. Þá munu smápokar sem hafa fengist gefins við kassa verða teknir úr umferð. Í fréttatilkynningu segir að Krónan vilji sýna frumkvæði í þessum efnum.

Ný löggjöf sem bannar verslunum að afhenda plastpoka án endurgjalds tekur gildi síðar í sumar en Krónan vill sýna frumkvæði og taka hefðbundið plast strax úr umferð.

„Það er markmið Krónunnar að setja umhverfismálin í forgang í allri okkar starfsemi og því lögðumst við í talsverða rannsóknarvinnu í samráði við sérfræðinga í umhverfisvernd til að tryggja að við myndum velja bestu leiðina í vali á burðarpokum,“ er haft eftir Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdarstjóra Krónunnar í fréttatilkynningu.  

Þá kemur fram að Krónan hafi valið sykurreyrpokana eftir að hafa litið til þátta á borð við kolefnisfótspors, framleiðsluaðferða, burðarþols, fjölnotaeiginleika og hversu auðvelt sé að endurvinna þá.

Sykurreyrpokarnir eru úr svokölluðu „grænu plasti“ sem er gætt sömu eiginleikum og hefðbundið plast. Pokarnir eru framleiddir í Brasilíu og er nánast eingöngu rigningarvatn notað til vökvunar á sykurreyrnum. Þá er hliðarafurð úr sykurreyrsvinnslunni notuð sem áburður við ræktun og því um sjálfbæra framleiðslu að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×