Fótbolti

De Rossi kvaddi Roma með mikilli viðhöfn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Rossi með son sinn í fanginu.
De Rossi með son sinn í fanginu. vísir/getty

Danielle De Rossi lék sinn síðasta leik fyrir Roma þegar liðið vann 2-1 sigur á Parma í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í gær.

Miðjumaðurinn öflugi var 18 ár í aðalliði Roma en það er eina félagið sem hann hefur verið hjá. Hann lék alls 616 leiki fyrir Roma og skoraði 63 mörk.

De Rossi hefur verið fyrirliði Roma síðan önnur goðsögn í sögu félagsins, Francesco Totti, lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum.

De Rossi var í byrjunarliði Roma í leiknum í gær en fékk heiðursskiptingu á 82. mínútu. Þegar hann fór af velli lét hann Alessandro Florenzi hafa fyrirliðabandið en hann tekur við því embætti af De Rossi. Líkt og flestir fyrirliðar Roma síðustu áratugina er Florenzi Rómverji í húð og hár.


Í leikslok klæddust allir leikmenn Roma treyjum með nafni De Rossi og númerinu 16 á bakinu.

Eftir leik fögnuðu fögnuðu stuðningsmenn Roma hetjunni sinni vel og innilega. De Rossi gekk hringinn á Ólympíuleikvanginum ásamt fjölskyldu sinni og þakkaði stuðningsmönnunum fyrir árin 18 hjá félaginu. Fjölmörg tár féllu þegar De Rossi kvaddi stuðningsmennina.

Ekki liggur fyrir hvað tekur við hjá hinum 35 ára De Rossi, hvort hann heldur áfram að spila og þá hvar.

Roma endaði í 6. sæti ítölsku deildarinnar og leikur í Evrópudeildinni á næsta tímabili.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.