Viðskipti innlent

Er­lendar eignir líf­eyris­sjóðanna aldrei verið meiri

Atli Ísleifsson skrifar
Seðlabankinn greindi nýverið frá því að heildareignir íslenskra lífeyrissjóða hafi numið 4.549 milljörðum króna í lok síðasta marsmánaðar.
Seðlabankinn greindi nýverið frá því að heildareignir íslenskra lífeyrissjóða hafi numið 4.549 milljörðum króna í lok síðasta marsmánaðar. vísir/vilhelm
Erlendar eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða nema nú tæpum þriðjungi heildareigna sjóðanna og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra.

Þetta kemur fram í frétt Greiningar Íslandsbanka og segir að heildareignir íslenskra lífeyrissjóða nemi nú liðlega einni og hálfri landsframleiðslu. Hafa þær aukist um ríflega 100 milljarða í hverjum mánuði það sem af er þessu ári.

Seðlabankinn greindi nýverið frá því að heildareignir íslenskra lífeyrissjóða hafi numið 4.549 milljörðum króna í lok síðasta marsmánaðar. Þar af voru eignir samtryggingarsjóðanna 4.085 milljarðar en eignir séreignarsjóða 460 milljarðar. Höfðu eignirnir aukist um 306 milljarða króna frá áramótum, en stærstur hlutur, eða um 270 milljarðar, hafi verið í samtryggingarsjóðunum.

Á vef Íslandsbanka segir að Fjármálaeftirlitið hafi í kjölfarið sent út sundurliðun á fjárfestingum lífeyrissjóðanna á fyrsta árskjórðungi þar sem fram kemur að eignaaukningin á fjórðungnum sé nánast jafn mikil og varð yfir allt árið 2018.

„Stærstur hluti hennar skýrist af erlendum fjárfestingum sjóðanna og hagstæðrar þróunar á erlendum mörkuðum. Þar verður þó að taka með í reikninginn að síðasti fjórðungur ársins 2018 var sjóðunum býsna mótdrægur hvað varðar snarpa verðlækkun á erlendum hlutabréfum og verðhækkunin í upphafi árs var að stórum hluta sú lækkun að ganga til baka,“ segir í frétt greiningardeildar bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×