Skoðun

Þriðji orkupakkinn

Baldur Dýrfjörð skrifar
Raforkulöggjöf Evrópusambandsins hefur verið í stöðugri þróun síðustu áratugi og svonefndur þriðji orkupakki, sem liggur nú fyrir Alþingi, er þar einn hlekkurinn. Samfélagsumræða um þriðja orkupakkann hefur verið lífleg síðustu vikur og fagnar Samorka því að orkumál veki áhuga, enda er græna orkan okkar fjöregg þjóðarinnar.

Forsaga þriðja orkupakkans er sú að á árinu 2003 tóku ný raforkulög gildi og aðskilnaður var gerður milli samkeppnisstarfsemi og sérleyfisstarfsemi. Með þeim voru innleidd ákvæði tilskipana Evrópusambandsins í raforkumálum og þá einkum um að þróa markað með raforku þannig að samkeppni tryggi lægsta verð til neytenda. Sömuleiðis voru strangar reglur settar um sérleyfisstarfsemina og verðlagningu á flutningi og dreifingu raforku með hag neytenda í huga. Þriðji orkupakkinn er frekari þróun á þessari löggjöf og felur í sér aukið sjálfstæði eftirlitsaðila, frekari kröfur um aðskilnað milli sérleyfisþátta og samkeppnisþátta og þar með að efla raforkumarkaðinn.

Eitt stærsta deilumálið sem snúið hefur að innleiðingu þriðja orkupakkans á við þau lönd sem búa yfir millilandatengingum. Hafa áhyggjurnar m.a. snúið að því að með innleiðingu þriðja orkupakkans sé hægt að skylda Ísland til að tengjast öðrum löndum með raforkusæstreng. Sem svar við þessum áhyggjum hefur ríkisstjórnin nú sem kunnugt er lagt fram frumvarp um þriðja orkupakkann þar sem sérstaklega er kveðið á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja um allt land. Þau eru ekki pólitísk samtök og öll vinna innan þeirra byggist á því að starfsemi orku- og veitufyrirtækja blómstri í þágu samfélagsins alls.

Samorka hefur ásamt lögfræðingum aðildarfyrirtækjanna vandlega kynnt sér þriðja orkupakkann út frá starfsemi orku- og veitufyrirtækja og út frá hagsmunum viðskiptavina þeirra. Niðurstaðan er sú að þriðji orkupakkinn sé framhald af þeirri löggjöf sem hefur verið í gildi um nokkurt skeið og hefur reynst vel og að með innleiðingu þriðja orkupakkans séu tekin enn frekari skref í þá átt því að auka samkeppni og stuðla að bættum hag neytenda. Í því ljósi styður Samorka innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi.

Baldur Dýrfjörð lögfræðingur Samorku




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×