Viðskipti innlent

Stefán Rúnar ráðinn framkvæmdastjóri IKEA

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Rúnar Dagsson.
Stefán Rúnar Dagsson. Mynd/ikea
Stefán Rúnar Dagsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá IKEA. Stefán tekur við af Þórarni Ævarssyni sem sagði starfi sínu lausu fyrr í mánuðinum.

Stefán hóf fyrst störf hjá IKEA fyrir 27 árum og hefur gegnt stöðu verslunarstjóra undanfarin 11 ár, og jafnframt verið aðstoðarframkvæmdastjóri undanfarin þrjú ár. Í tilkynningu segir að hann „gjörþekki rekstur fyrirtækisins“ og hafi sinnt ýmsum störfum innan þess á starfsferlinum. Þá hafi hann einnig tekið þátt í uppbyggingu IKEA verslana erlendis. Stefán er giftur Rut Gunnarsdóttur og þau búa í Kópavogi ásamt tveimur börnum sínum.

„Stjórn IKEA á Íslandi fagnar því að fá Stefán til starfa sem framkvæmdastjóra og er sannfærð um að hann stýri fyrirtækinu þannig að sterk staða vörumerkis IKEA eflist enn frekar um árabil,“ segir í tilkynningu.

Fyrsta IKEA verslunin á Íslandi var opnuð árið 1981 í Hagkaup í Skeifunni en flutti í núverandi húsnæði í Kauptúni árið 2006. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú um 450. Eigendur IKEA á Íslandi reka einnig IKEA verslanir í Litháen og Lettlandi, og opnun er fyrirhuguð í Eistlandi.


Tengdar fréttir

Þórarinn tekur sæti í stjórn IKEA

Undirbúningur að ráðningu eftirmanns Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, er hafinn og er tilkynningar að vænta um það á næstu vikum, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn IKEA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×