Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 30-27 | Eyjamenn tryggðu oddaleik

Einar Kárason skrifar
Baráttan er mikil í þessu einvígi.
Baráttan er mikil í þessu einvígi. vísir/vilhelm
Það var að duga eða drepast fyrir heimamenn ÍBV þegar Haukar mættu í heimsókn í fjórða leik liðanna í úrslitakeppninni. Tap hefði þýtt að Haukarnir væru komnir í úrslit en sigur myndi knýja fram oddaleik.

Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins en Eyjamenn jöfnuðu í sömu andrá. Lið ÍBV virkaði sterkt frá fyrstu mínútu og mættu ákveðnir til leiks, en til þess að vinna lið eins og Hauka þarftu að eiga toppleik. Liðin skiptust svo á að skora en heimamenn virkuðu alltaf hálfu skrefi framar. Hægt og bítandi tókst þeim að slíta sig frá Hafnfirðingum og héldu þeim í hæfilegri fjarlægð þar til hálfleiksbjallan glumdi. Þegar liðin gengu til búningsherbergja leiddu Eyjamenn með 4 mörkum, 15-11.

Haukarnir mættu endurnærðir og staðráðnir í að leyfa ÍBV ekki að stinga af og skoruðu fyrstu 3 mörk hálfleiksins áður en heimamenn náðu að vakna til lífsins. Við tók þá svipað kerfi og í fyrri hálfleiknum þar sem ÍBV leiddi með einu til 2 mörkum.

Gestirnir náðu að jafna stöðuna í 21-21 þegar rúmlega 10 mínútur voru til leiksloka og nokkuð gefið að einhverjir stuðningsmanna ÍBV hafi óttast það versta en það veit ekki á gott þegar Haukamenn eru komnir með blóð á tennurnar. Það var þó ekkert að óttast þar sem heimamenn sýndu allan þann karakter sem í þeim býr, spiluðu góða vörn og agaðan sóknarleik og spýttu í lófana.

Leikar enduðu með þriggja marka sigri ÍBV, 31-27, í prúðmannlega leikinni og vel spilaðari handboltaveislu.

Af hverju unnu ÍBV?

Sterkur varnarleikur og agaður sóknarleikur kom þeim langt í dag. Fóru vel með flestar sóknir sínar og stórir menn stigu upp.

Hvað gekk illa?

Gestunum gekk illa að skora mörkin þegar mesta þörfin var á þeim. Þeir náðu að halda í við lið ÍBV en þegar jöfnunarmarkið kom náðu heimamenn alltaf að spyrna sér frá og búa til forskot á ný.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍBV voru þeir Sigurbergur Sveinsson, Dagur Arnarsson og Kristján Örn Kristjánsson með 6 mörk hver en hjá gestunum var Orri Freyr Þorkelsson með 5 mörk skoruð, öll úr vítum,  en þeir Brynjólfur  Snær Brynjólfsson, Adam Haukur Baumruk og Daníel Þór Ingason gerðu 4.

Það er þó nauðsynlegt að hrósa leikmönnum beggja liða fyrir vel spilaðan handboltaleik. Leikið var af mikilli hörku og það voru læti en á sama engin vitleysa og menn voru íþróttinni til sóma.. Einungis 4 brottvísanir komu í dag. Þrjár ÍBV megin en ein Haukamegin.

Hvað gerist næst?

Við. Fáum. Oddaleik.

Schenkerhöllin.

Næstkomandi laugardag.

Dagur: Geggjað

Dagur Arnarsson var ánægður með sinn leik sem og liðið í heild í dag.

,,Þetta var bara geggjað. Við gerðum akkurat það sem við ætluðum okkur. Við viljum fara alla leið og þetta var fyrsta skrefið í þá áttina. Þetta lið er með frábæra liðsheild. Það er fátt sem bítur á okkur og við þjöppuðum okkur saman.”

,,Við skelltum okkur í góðan göngutúr saman upp á Stórhöfða og það er ótrúlegt það sem náttúran getur gefið manni.”

,,Við byrjuðum vel en spurningin var ekki endilega að gera réttu hlutina heldur að vinna fyrir hvorn annan. Það er það sem við stöndum fyrir. Menn voru að bakka hvorn annan upp. Við sýndum styrk í að ýta þeim frá okkur í hvert skipti sem þeir náðu að jafna leikinn. Við brotnuðum ekki við neitt mótlæti. Stóðum sterkir í dag og þurfum að sýna sama styrk á Ásvöllum.”

Þrátt fyrir að markmiðið sé að fara alla leið er Dagur ekki farinn að dreyma eitt né neitt.

,,Við tökum einn leik fyrir í einu og til að fara alla leið þurfum við að vinna Hauka á Ásvöllum. Við mætum þangað með kassann fram og sjálfstraustið í botni. Við ætlum að gera þetta fyrir fólkið okkar sem mætti á síðasta leik og verður þarna aftur á laugardaginn. Við áttum stúkuna þá og við munum eiga hana aftur. Þetta eru bestu stuðningsmenn landsins,” sagði Dagur að lokum.

Gunnar: Oddaleikirnir á Ásvöllum eru ótrúlegir

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var að vonum eilítið svekktur með útkomuna úr leik kvöldsins.

,,Við vorum 4 mörkum undir í hálfleik og það er erfið staða til að koma til baka en mér finnst við samt koma sterkir til baka í seinni hálfleik og spilum mun betur. Við jöfnum leikinn og komumst inn í leikinn. Komum okkur í færi til að gera þetta að leik. Heilt yfir vantar okkur að klára færin í lokin til að klára þetta . Fyrri hálfleikurinn situr í mér eftir þetta.”

 ,,Þeir voru sterkir og góðir og betri en við í dag. Við áttum sigurinn síður skilið en engu að síður margt sem við getum lagað á næstu dögum og við verðum klárir á laugardaginn.”

Haukarnir hefðu getað klárað einvígið í dag en staðan er sú að spilaður verður oddaleikur á laugardaginn næstkomandi.

,,Þetta eru allt hörkuleikir og þetta verður hörkuleikur. Þannig er þetta bara. Þetta er bara stál í stál. Menn verða bara klárir. Við ætluðum okkur áfram í dag en þetta eru tvö frábær lið og þetta verður áfram stál í stál.”

,,Þessir leikir hafa boðið upp á góðan handbolta og ég býst við því áfram. Við fáum Darra (Aronsson) aftur inn í næsta leik og hann kemur með ákveðna breidd. Menn eru orðnir þreyttur og því gott að fá ferska fætur inn. Það verður kjaftfullt hús. Fullt af Eyjamönnum og fullt af Haukamönnum. Oddaleikirnir þarna á Ásvöllum eru ótrúlegir og þetta verður engin undartekning,” sagði Gunnar að lokum.

Kristinn: Mikið búið að ganga á

„Gríðarlega sáttur og stoltur af strákunum,” sagði Kristinn Guðmundsson annar þjálfara ÍBV eftir sigurinn gegn haukum í kvöld.

„Við áttum í miklum erfiðleikum í síðasta leik og mikið búið að ganga á og okkur tókst að stilla okkur inn á að spila góðan handbolta. Þéttum okkur varnarlega og mætum þeirra seinni bylgju vel sem er þeirra helsta vopn. Við látum þá stilla upp á móti okkur og það var gott. Við vorum agaðir lengst af sóknarlega en við vorum áræðnir.”

„Við höfum verið að byrja þessa leiki oft ágætlega hérna heima í úrslitakeppninni. Þetta hefur ekki verið sama forgjöfin og oft áður. Þessir strákar þrífast best í þessu andrúmslofti. Að allt sé undir og mikil læti.”

Fjölmennt var í salnum í dag. Eitthvað sem Kristinn er alltaf jafn ánægður með.

„Þessi stúka. Þetta verður alltaf meira og meira. Maður fann allan titringinnn frá fólkinu í dag og það eru rosaleg forréttindi að vera í kringum handbolta í Vestmannaeyjum.”

„Næsti leikur er bara 50/50 leikur. Það verður líklega rosaleg mæting úr Eyjum í næsta leik, með Landeyjahöfn og alltsaman. Ég held að þetta verði ennþá flottara og betra!”

„Við verðum að hugsa um að þetta sé sami völlurinn og kalla fram það sama og hérna í dag. Úrslitakeppni snýst um frumkvæði og við erum með frumkvæði núna og það er okkar að hugsa aggresíft áfram og skoða leikinn.“

„Hvar getum við sótt varnarlega eða sóknarlega og vera tilbúnir undir erfiðan leik á laugardaginn. Haukarnir eru með frábæra þjálfara og leikmenn og koma til með að fara yfir þetta, rétt eins og við,” sagði Kristinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira