Viðskipti innlent

Heiðar Guðjónsson ráðinn forstjóri Sýnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heiðar er nýr forstjóri Sýnar.
Heiðar er nýr forstjóri Sýnar. Sýn hf.
Heiðar Guðjónsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Sýnar. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins sem hægt er að nálgast hér.

Heiðar hefur þá einnig sagt sig úr stjórn félagsins. Hjörleifur Pálsson tekur við stjórnarformennsku og Sigríður Vala Halldórsdóttir varastjórnarmaður tekur sæti í stjórn.

„Heiðar hefur stýrt stjórnarstörfum undanfarin ár af röggsemi. Það er mikill fengur af því að fá hann til þess að leiða daglegan rekstur félagsins, enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni. Við bjóðum hann því velkominn til starfa á nýjum vettvangi,“ segir Hjörleifur Pálsson, nýr stjórnarformaður Sýnar.

Heiðar segist þakklátur því trausti sem honum er sýnt með þessari ráðningu og segir verkefnin sem hann stendur nú frammi fyrir vera krefjandi.

„Framundan eru krefjandi verkefni, sem ég hlakka til að leysa af hendi í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá Sýn hf.“

Heiðar tekur við starfi forstjóra af Stefáni Sigurðssyni. Tilkynnt var um fráhvarf hans frá rekstri fyrirtækisins í febrúar. Stefán gegndi stöðu forstjóra frá 2014, þegar hann var ráðinn forstjóri Vodafone (Fjarskipta hf.). Félagið varð að Sýn í mars í fyrra eftir að kaup á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. gengu í gegn.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×