Viðskipti erlent

Samsung þjarmar að iFixit vegna Galaxy Fold

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fallegur en brothættur Samsung Galaxy Fold.
Fallegur en brothættur Samsung Galaxy Fold. Nordicphotos/AFP
Suðurkóreski tæknirisinn Samsung skipaði tækniviðgerðafyrirtækinu iFixit að fjarlægja myndband af YouTube-rás sinni þar sem sjá mátti Samsung Galaxy Fold, hinn væntanlega samanbrjótanlega snjallsíma Samsung, tekinn í sundur.

„Við fengum Galaxy Fold í gegnum samstarfsaðila. Samsung fór fram á það við samstarfsaðilann að iFixit fjarlægði myndbandið. Við erum ekki skyldug til þess að gera það en í virðingarskyni höfum við ákveðið að fjarlægja myndbandið þar til við getum keypt Galaxy Fold er hann fer í almenna sölu,“ sagði í tilkynningu iFixit.

Samsung svaraði ekki fyrirspurn tæknimiðilsins The Verge um málið. Það liggur hins vegar fyrir að Samsung hefur átt í nokkru basli með þennan síma að undanförnu.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Samsung hefði innkallað alla Galaxy Fold frá gagnrýnendum og tæknibloggurum til þess að skoða frekar alvarlegan galla. Gagnrýnendur og bloggarar höfðu margir hverjir lent í því að innri skjár símans skemmdist við minnsta eða jafnvel ekkert sjáanlegt áreiti. Þá hefur Samsung einnig frestað því að síminn verði settur í sölu vegna vandans. Talið er að gallann megi rekja til núnings sem myndast við hjarir símans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×