Viðskipti innlent

Icelandair leigir tvær Boeing 767-breiðþotur og sú þriðja á leiðinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Vísir/vilhelm
Icelandair hefur gengið frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum sem félagið verður með í rekstri út septembermánuð. Þá er unnið að því að leigja þriðju vélina og einnig verið að endurskoða flugáætlun félagsins fyrir sumarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en félagið kyrrsetti þrjár Boeing 737 MAX-flugvélar sínar í síðasta mánuði í kjölfar mannskæðs flugslyss í Eþíópíu. 

Fyrri vélin kemur til Icelandair um miðjan apríl en sú síðari snemma í maí. Um er að ræða 262 sæta flugvélar með tveimur farrýmum og eru vélarnar með afþreyingarkerfi. Þá er félagið að vinna að því að leigja þriðju vélina sem myndi bætast við flotann í sumar.

Félagið vinnur jafnframt að endurskoðun flugáætlunar sinnar fyrir sumarið 2019 í kjölfar mikilla breytinga á samkeppnisumhverfinu, sem ætla má að megi rekja til gjaldþrots helsta samkeppnisaðila félagsins, WOW air.

„Þegar Boeing 737 MAX vélarnar koma í rekstur þá hefur félagið möguleika á að auka framboð í háönn frá því sem áður var áætlað þar sem ofangreindar breiðþrotur hafa bæst í flotann,“ segir í tilkynningu.

Breytingar urðu á flugvélaflota Icelandair nú í mars í kjölfar mannskæðs flugslyss í Eþíópíu, þar sem flugvél af gerðinni Boeing 737 MAX 8 brotlenti í annað sinn á skömmum tíma. Í ljósi þess ákvað Icelandair að taka allar Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri, þrjár talsins, um óákveðinn tíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×