Viðskipti innlent

Actavis segir upp 33 starfsmönnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Þrjátíu og þremur starfsmönnum Actavis verður sagt upp á næstu mánuðum. Fyrstu uppsagnirnar taka gildi um mánaðamótin en öðrum verður dreift yfir árið. Starfsmönnum var greint frá þessum fyrirætlunum í dag. Að sögn upplýsingafulltrúa Actavis á Íslandi, Sigfúsar Arnar Guðmundssonar, má rekja uppsagnirnar til skipulagsbreytinga hjá móðurfélagi Actavis, ísraelska samheitalyfjafyrirtækisins Teva.

Alls munu 11 starfsmenn á þróunarsviði Actavis missa vinnuna og taka uppsagnir þeirra gildi þann 1. maí næstkomandi. Hinar uppsagnirnar 22, sem eru á skráningarsviði fyrirtækisins, dreifast hins vegar yfir árið að sögn Sigfúsar.

Hann segir að Teva hafi ráðist í margvíslegar breytingar á starfsemi sinni á undanförnum árum, til að mynda með sameiningum skrifstofa og annars konar hagræðingaraðgerðum. Vísir greindi þannig frá því í lok árs 2017 að Teva hefði í hyggju að segja upp um 14 þúsund manns, næstum fjórðungi starfsmanna sinna.

Aðgerðunum var ætlað að rétta slæman rekstur félagsins af. Skuldabyrði Teva, sem er stærsti seljandi samheitalyfja í heiminum, hafði þyngst töluvert eftir að það tók yfir rekstur Actavis, og þar með lyfjasölufyrirtækisins Medis, en kaupin fóru í gegn árið 2015.

Rúmt ár er síðan að Teva lagði niður skráningarstarfsemi fyrir eigin vörumerki á Íslandi. Við það misstu 30 manns vinnuna. 


Tengdar fréttir

Kaupa lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi

Kaup Coripharma og hóps fjárfesta á lyfjafyrirtækinu Actavis í Hafnarfirði og húsnæði þess við Reykjavíkurveg 76 voru undirrituð í gær.

Um þrjátíu missa störf sín hjá Actavis

Starfsfólki Actavis hér á landi var tilkynnt í gær að Teva, móðurfélag Actavis, ætlar að leggja niður skráningarstarfsemi fyrir eigin vörumerki á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×