Viðskipti innlent

Farþegar WOW air yngri, dvöldu skemur og eyddu minna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ferðamenn sjást hér lenda á Keflavíkurflugvelli með flugi WOW air í sumar.
Ferðamenn sjást hér lenda á Keflavíkurflugvelli með flugi WOW air í sumar. Vísir/vilhelm
Samsetning WOW air ferðamanna eftir markaðssvæðum var ólík samsetningu ferðamanna Icelandair og annarra flugfélaga samkvæmt greiningu Ferðamálastofu á könnum meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd var á síðasta ári.

Ferðamálastofa hefur birt lykilniðurstöður úr könnunni á vef stofnunarinnar. Ráðist var í greininguna vegna gjaldþrots WOW air til þess að fá mynd af ferðamynstri þeirra farþega sem komu með félaginu til landsins á síðasta ári.

Í greiningunni kemur fram að hlutfall ferðamanna í yngri aldurshópum var hærra hjá WOW air en hjá öðrum flugfélögum, ferðamenn sem komu með WOW air dvöldu skemur en aðrir ferðamenn. Þá nýttu þeir sér íbúðagistingu á borð við AirBnb í meira mæli en aðrir ferðamenn. Auk þess voru meðalútgjöld ferðamanna WOW air lægri en ferðamanna Icelandair en álíka há og þeirra sem ferðuðust með öðrum flugfélögum.

Ferðamenn sem komu til landsins með WOW air dvöldu að jafnaði sex nætur hér á landi á síðasta ári en meðaldvalarlengd ferðamanna á sama tíma var 6,3 nætur. Ferðamenn Icelandair dvöldu hér á landi í 6,4 nætur og farþegar annarra flugfélag 6,5 nætur.

Mynd/Ferðamálastofa.
Þá kemur fram að farþegar WOW air hafi skorið sig töluvert úr þegar kom að tegund gistingar. Um 38 prósent farþega WOW air gistu á hótelum, marktækt lægra hlutfall en hjá Icelandair-farþegum og þeim sem ferðuðust með öðrum flugfélögum, 47 prósent annars vegar og 42 prósent hins vegar.

Fimmtungur ferðamanna WOW air gisti íbúðagistingu sem var marktækt hærra hlutfall en hjá ferðamönnum Icelandair (17 prósent) og annarra flugfélaga (15 prósent).

Mynd/Ferðamálastofa
60 prósent farþega WOW air var yngri en 34 ára en aðeins 46 prósent farþega Icelandair voru á sama aldursbili.

Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir útgjöldum ferðamanna hér á landi og eftir því með hvaða flugfélagi var ferðast kemur í ljós að meðalútgjöld WOW air ferðamanna voru lægri en Icelandair ferðamanna og þeirra sem komu með öðrum flugfélögum.

Meðalútgjöld WOW air ferðamanna voru 189.600 árið 2018, 222.400 að sumri og 151.700 að vetri en sömu tölur hjá Icelandair voru 233.937 árið 2018, 206.756 að sumri og 256.765 að sumri.

Þá eyddu farþegar WOW air að meðaltali marktækt minna en ferðamenn Icelandair á kaffihúsum og veitingastöðum. Ekki var hins vegar marktækur munir á meðalútgjöldum ferðamanna í gistingu.

Greiningu Ferðamálastofu má nálgast hér.



Mynd/Ferðamálastofa.

Tengdar fréttir

700 umsóknir til Vinnumálastofnunar vegna WOW air

Rúmlega 700 umsóknir hafa borist Vinnumálastofnun vegna gjaldþrots WOW air. Flugliðar í fullu námi sem fá ekki atvinnuleysisbætur óska eftir því að stofnunin grípi inn í varðandi tímabundnar greiðslur. 40 fyrrverandi flugmenn WOW air hafa sótt um vinnu hjá erlendu flugfélagi sem kynnti starfsemi sína hér á landi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×