Viðskipti innlent

Búast við að yfirgefin WOW-vél verði flutt í næstu viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
WOW air hætti starfsemi í lok síðasta mánaðar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
WOW air hætti starfsemi í lok síðasta mánaðar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm
Samgönguyfirvöld í New York og New Jersey í Bandaríkjunum gera ráð fyrir að Airbus A321 vél WOW air, sem staðið hefur á Newark-Liberty flugvellinum í New Jersey síðustu daga, verði flutt af vellinum í næstu viku. Vélin hefur staðið óhreyfð á vellinum síðan WOW fór í þrot og aflýsti öllum flugferðum sínum, þann 28. mars síðastliðinn.

„Vélin hefur verið þarna síðan 28. mars, sem var síðasti dagurinn sem vél frá WOW flaug á Newark,“ sagði Abigail Goldring, hjá samgönguyfirvöldum New York og New Jersey, í samtali við staðarmiðilinn nj.com.

Aðspurð hvað framtíð vélarinnar beri í skauti sér segir Goldring að unnið sé með viðeigandi aðilum að því að flytja hana af vellinum.

„Við höfum verið að vinna með eignarhaldsfélagi WOW, Compass Aviation, til þess að finna út úr smáatriðum er varða flutning vélarinnar. Hún gæti verið flutt einhvern tímann í næstu viku.“

Þá er óvíst hvert vélin verður flutt og hvað verður um vélina eftir að búið verður að flytja hana frá Newark.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×