Viðskipti innlent

Isavia fundar með eigendum WOW-vélarinnar í dag

Kristín Ólafsdóttir og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku.
Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Vísir/vilhelm
Viðræður Isavia og fulltrúa eiganda flugvélar, sem WOW air var með á leigu og var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli, hefjast í dag. Þetta staðfestir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við fréttastofu.

Tvær flugvélar í eigu Air lease corporation (ALC), sem WOW air leigði af fyrirtækinu, eru nú á Keflavíkurflugvelli. Isavia kyrrsetti aðra vélina, TF-GPA, á flugvellinum vegna vangreiddra skulda í kjölfar gjaldþrots WOW air og hefur gefið út að vélin verði ekki látin af hendi fyrr en ALC greiði skuldir WOW.

Lögmenn bæði Isavia og ALC munu sitja fundinn, sem hefst nú síðdegis. Reynt verður að greiða úr málum á fundinum, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Guðjón sagði í samtali við fréttastofu í gær að leggja þurfi fram viðeigandi tryggingu eða greiða skuldina eigi að láta flugvélina af hendi, en ekki hefur komið fram hversu há hún er. Því hefur þó verið haldið fram að umrædd gjöld nemi einum til tveimur milljörðum króna.

Verðmæti TF-GPA er metið á um fimmtán til átján milljarða króna. Flugvélin sem ekki er kyrrsett ber einkennisstafina TF-SKY en báðar eru þær af gerðinni Airbus A321.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×