Viðskipti innlent

Norwegian staðsetur vél á Íslandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Norwegian mun staðsetja vél sína hér á landi
Norwegian mun staðsetja vél sína hér á landi Getty/Simon Dawson
Heimsferðir hafa samið við Norwegian um flug sitt til Kanaríeyja næsta vetur, en Norwegian mun staðsetja vél á Íslandi til að sinna flugi fyrir fyrirtækið.

Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir í samtali við Vísi að það teljist til tíðinda að flugfélagið staðsetji vél sína hér á landi. „Vél Norwegian kemur til Íslands og sinnir þessu flugi sem hefur aldrei verið áður í boði. Þrátt fyrir að Norwegian hafi áður flogið frá Íslandi hafa þær ferðir alltaf átt uppruna sinn erlendis,“ segir Tómas. Því megi segja að heimahöfn vélarinnar verði á Íslandi.

Síðastliðinn vetur hafi Heimsferðir reitt sig á vélar Icelandair og flugfélagsins Travel Service en vélar síðarnefnda félagsins hafi ætíð byrjað ferðalag sitt erlendis. „Það að við getum boðið upp á samning undir þessum formerkjum, að það sé flogið héðan, það skiptir einfaldlega höfuðmáli í samkeppninni,“ segir Tómas.

Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í morgun um samninginn við Norwegian segir að boðið verði upp á morgunflug til Tenerife og Gran Canaria. Norwegian fljúgi auk þess til ýmissa áfangastaða fyrir systurfyrirtæki Heimsferða í Svíþjóð og Danmörku.

Í tilkynningunni segir jafnframt að Norwegian muni nota 737-800 vélar til flugsins, sem beri 186 sæti.

Tómas segir samninginn afar hagstæðan og vera til þess fallinn að halda upp virkri samkeppni um flug til Kanaríeyja. Ekki skemmi heldur fyrir að flugtíminn sé heppilegur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×