Viðskipti innlent

Indigo íhugar að auka fjárfestingu í WOW

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air. Fréttablaðið/Anton Brink
Í yfirlýsingu sem send var í gegnum kauphöllina í Stokkhólmi segist bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Indigo Partners tilbúinn að hækka upphaflegt 75 milljón dollara framlag sitt inn í rekstur WOW air um allt að 15 milljónir dollara, verði ákveðin skilyrði sjóðsins uppfyllt. Heildarfjárfesting sjóðsins í WOW gæti þannig numið tæpum 11 milljörðum króna. Mbl greindi frá þessu fyrr í dag.

Þó er ítrekað í yfirlýsingunni ekki sé komið á samkomulag milli Indigo og WOW þar sem enn eigi eftir að ljúka áreiðanleikakönnun á rekstri WOW. Þá kemur fram að eignarhlutur Skúla Mogensen í félaginu standi og falli með afkomu félagsins í framtíðinni. Þannig geti hann orðið á bilinu 0 til 100%.

Skilmálar Indigo fyrir aukinni fjárfestingu kveða meðal annars á um að lán upp á sex milljónir dollara, tæpar 730 milljónir króna, sem Títan, fjárfestingarfélag Skúla Mogensen, veitti WOW verði afskrifað og að endurskipulagning í fjármálum félagsins valdi því að mögulegar endurheimtur hluthafa WOW velti alfarið á afkomu félagsins í framtíðinni.

Í yfirlýsingunni segir einnig að skilmálar sem skuldabréfaeigendur í WOW hafi gengið að muni koma til með að þurfa að breytast, eigi félagið að geta haldið rekstrarhæfi sínu og að samkvæmt áreiðanleikakönnun hafi komið í ljós að eigendur skuldabréfa þurfi að samþykkja skilmála sem leiði af sér að endurheimtur þeirra bindist við frammistöðu í rekstri félagsins á næstu árum. Þá er einnig lagt upp með að lengt verði í bréfunum og greiðist þau þá út á fimm árum í stað þriggja eins og upphaflega stóð til. Fjárfestar í bréfum WOW air samþykktu í janúar síðastliðinn breytta skilmála bréfanna.


Tengdar fréttir

Gætu þurft að taka á sig tugprósenta afföll

Fulltrúar Indigo Partners krefjast þess að skuldabréfaeigendur WOW air taki á sig tugprósenta afskriftir og að endanlegur hlutur Skúla Mogensen verði minni en áður hefur verið rætt um. Skilyrðin ollu Skúla miklum vonbrigðum.

Telur viðræðurnar stranda á eignarhlut Skúla

Stærsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Indigo Partners og WOW air er stærð eignarhlutar stofnanda flugfélagsins eftir fjárfestingu bandaríska sjóðsins, að sögn heimildarmanns bresks viðskiptablaðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×