Viðskipti innlent

Sigrún Ragna í stjórn Creditinfo Group á ný

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016.
Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016. MANNVIT
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem um árabil var eini kvenkyns forstjóri félags í Kauphöllinni, hefur aftur tekið sæti í stjórn Creditinfo Group. Skipun hennar er liður í endurskipulagningu félagsins eftir að Actis tvöfaldaði hlut sinn í félaginu, eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun. Ásamt henni mun Ali Mazanderani, meðeigandi hjá Actis, taka sæti í stjórn CreditInfo en þar voru fyrir þau Reynir Grétarsson stjórnarformaður, Nora Kerppola og Hákon Stefánsson.

Haft er eftir Sigrúnu Rögnu í tilkynningu sem send var út vegna málsins að henni þyki spennandi að takast á við komandi verkefni. „Félagið er í örum vexti og er orðið leiðandi á sviði áhættustýringar og miðlunar fjármálaupplýsinga á mikilvægum vaxtarmörkuðum.“

Í tilkynningunni er ferill Sigrúnar jafnframt rakinn og þess getið að hún hafi setið í stjórn Creditinfo Lánstrausts hf. frá 2017. Sigrún Ragna var auk þess forstjóri VÍS á árunum 2011-2016 en eftir að hún lét af störfum var enginn kvenkyns forstjóri hjá skráðu félagi í Kauphöllinni.

Sjá einnig: Reynir selur tíu prósenta hlut í Creditinfo Group

Eftir að hún sagði skilið við VÍS lá leið hennar til Mannvits þar sem hún tók við stöðu forstjóra í nóvember árið 2017. Sá ráðahagur entist þó ekki lengi því aðeins fimm mánuðum síðar sagði hún starfi sínu lausu. Ástæðuna fyrir vistaskiptunum sagði Sigrún vera að framtíðarsýn hennar og lykileigenda Mannvits hafi ekki farið saman.

Sigrún Ragna er að sama skapi viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi. Sigrún Ragna útskrifaðist þar að auki með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.

Þá hefur hún setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, m.a. Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×