Í fréttum sem birtust á Túrista, og svo Mbl í kvöld, er haft eftir heimildum að þungur róður í viðræðum Skúla og Indigo Partners hafi knúið Skúla til að leita til Boga. Erindið hafi verið að kanna flöt á aðkomu Icelandair að Wow air.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta mál,“ segir Bogi Nils í samtali við Vísi í kvöld.
Í gærkvöldi sendi WOW Air frá sér tilkynningu þess efnis að ekki hefði náðst að ganga frá endanlegu samkomulagi um kaup Indigo á stórum hlut í WOW Air. Viðræðum verður þó framhaldið og er vonast til að þeim verði lokið fyrir föstudaginn 29. mars.
Þá hefur gengi hlutabréfa í Icelandair hækkað síðustu daga. Forstöðumaður greiningardeildar Capacent sagði í samtali við Vísi í dag að þegar litið sé til gengisstyrkingar Icelandair virðist hlutabréfamarkaðurinn líta svo á að samningaviðræður WOW Air og Indigo Partners gangi illa.