Körfubolti

Reggie Miller: Hvað hefur komið fyrir elsku NBA deildina mína?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trae Young skildi ekkert í tæknivillunni og fleiri voru líka hissa.
Trae Young skildi ekkert í tæknivillunni og fleiri voru líka hissa. Getty/Matt Marton
NBA-goðsögn hefur áhyggjur af viðkvæmni hjá NBA-dómurum eftir að einn besti nýliði NBA-deildarinnar í vetur var sendur í sturtu í nótt.

Trae Young, nýliðinn hjá Atlanta Hawks, var rekinn út úr húsi í NBA-deildinni í nótt að því virðist fyrir að stara á mótherja sinn og sá hinn sami var ekki einu sinni að horfa á hann.

Trae Young var með 18 stig og 5 stoðsendingar á 18 mínútum áður en hann var rekinn út úr húsi. Þetta var hans önnur tæknivilla í leiknum og þess vegna var hann útilokaður frá frekari leik.





Atlanta Hawks náði engu að síður að vinna 123-118 sigur á Chicago Bulls án hans. Trae Young hafði komið liðinu í 78-62 með því að setja niður þrist. Hann starði hnakkann á Kris Dunn í framhaldinu og einn dómaranna skellti á honum tæknivillu.

NBA goðsögnin Reggie Miller var þekktur fyrir frábæra hittni og að spila jafnan best þegar allt var undir í leikjunum. Hann var líka óhræddur við að láta móherja sína vita af því hversu góður hann var.

Það þarf því ekki að koma mikið á óvart að Reggie Miller hafi látið í sér heyra eftir tæknivillu næturinnar.  

„Hvað hefur komið fyrir elsku NBA deildina mína? Allt er svo mjúkt og viðkvæmt núna. Trae Young átti aldrei að fá tæknivillu fyrir þetta. Ég hefði verið blankur og búið að henda mér út úr deildinni eftir tvö ár,“ skrifaði Reggie Miller eins og sjá má hér fyrir neðan.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×