Körfubolti

„Þá verður LeBron James ekki lengur besti körfuboltamaður heims“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James þarf að kalla fram súpermanninn í sér til að koma Los Angeles Lakers inn í úrslitakeppnina.
LeBron James þarf að kalla fram súpermanninn í sér til að koma Los Angeles Lakers inn í úrslitakeppnina. Getty/Jonathan Bachman
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru í vandræðum í NBA-deildinni eftir tap á móti New Orleans Pelicans í síðasta leik sínum.

Líkurnar aukast nú dag frá degi að Los Angeles Lakers missi hreinlega af úrslitakeppninni í ár.

Liðið hefur „bara“ unnið 29 af 59 leikjum sínum á leiktíðinni og er eins og er fjórum sigurleikjum frá sæti í úrslitakeppninni. Liðin í sjöunda og áttunda sæti, Los Angeles Clippers og San Antonio Spurs, hafa bæði unnið 33 leiki.

LeBron James hefur komist með liði sínu í lokaúrslitin undanfarin átta tímabil og hann hefur ekki misst af úrslitakeppninni í fjórtán ár eða síðan hann var á sínu öðru tímabili í deildinni tímabilið 2004-05.

Pressan er farin að aukast talsvert á LeBron James sem er ætlað að bjarga málunum og bera Lakers-liðið á herðum sér inn í úrslitakeppnina.

LeBron er með 26,8 stig, 8,7 fráköst og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik en það hefur ekki skilað betri stöðu. Fjarvera hans í sautján leikjum í desember og janúar kom Lakers liðinu mjög illa.

Sumir álíta sem svo að LeBron James myndi verða fyrir álitshnekki missi hann af úrslitakeppninni í ár. Einn af þeim er Cris Carter sem er í þættinum First Things First á FOX Sports.





„Ef þeir missa af úrslitakeppninni þá mun Lakers reka þjálfarann sinn. Ef þeir missa af úrslitakeppninni þá verður LeBron James ekki lengur besti körfuboltamaður heims. Sá titill mun þá færast yfir á einhvern annan,“ sagði Cris Carter.

Cris Carter er líka á því að það gæti líka haft áhrif á ákvarðanir stjörnuleikmanna með lausa samninga í sumar. Missi Lakers liðið af úrslitakeppninni í ár þá gætu þeir farið að efast um framtíðarmöguleika liðsins og það gæti hjálpað þeim að taka ákvörðun um að fara annað en til Los Angeles Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×