Viðskipti innlent

Stefán hættir sem forstjóri Sýnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar
Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar hefur óskað eftir því að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins frá og með 1. júní nk., samkvæmt samkomulagi við stjórn Sýnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sýn.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um ráðningu forstjóra í hans stað en ráðningarferli er hafið. Stefán mun verða stjórninni innan handar þar til nýr forstjóri er ráðinn, að því er segir í tilkynningu.

Stjórn félagsins hefur falið Heiðari Guðjónssyni stjórnarformanni að annast í auknum mæli skipulag félagsins og gæta þess að rekstur þess sé í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra.

Í tölvupósti sem Stefán sendi starfsmönnum Sýnar í kvöld segir að ákvörðun hans um starfslok á þessum tímapunkti sé tvíþætt.

„Ég vil í fyrsta lagi taka ábyrgð á því að afkomuspár hafa ekki gengið eftir og í öðru lagi viðurkenna að mikil orka fór á síðasta ári í samrunann og ég tel að félagið þurfi á þessum tímapunkti forstjóra með fulla tanka af orku.“



Stefán hefur gegnt starfi forstjóra síðan árið 2014, þegar hann var ráðinn forstjóri Vodafone (Fjarskipta hf.). Félagið varð að Sýn í mars í fyrra eftir að kaup á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. gengu í gegn.



Vísir er í eigu Sýnar hf.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×