Viðskipti innlent

Bud Light á leið í vínbúðirnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bud Light er með rúmlega 15 prósenta markaðshlutdeild á bandaríska bjórmarkaðnum.
Bud Light er með rúmlega 15 prósenta markaðshlutdeild á bandaríska bjórmarkaðnum. Getty/Erika Goldring
Íslendingar munu geta gætt sér á vinsælasta bjórnum vestanhafs, hinum bandaríska Bud Light, frá og með 1. mars næstkomandi. Þá verða 30 ár liðin frá því að bjór var aftur leyfður á Íslandi, eftir rúmlega 70 ára útskúfun.

Að sögn Halldórs Ægis Halldórsson, starfsmanns Vínnes sem flytur Bud Light til landsins, hefur innflutningurinn verið í undirbúning í um fimm ár. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að fyrirtækinu, sem er með dreifingarsamning við móðurfélag Bud Light, hafi regluleg borist fyrirspurnir um hvort Vínnes geti hafið sölu bjórsins hér á landi. Fyrstu vörubrettin hafi komið til landsins í síðustu viku og því hafi það óneitanlega verið svekkjandi að geta ekki boðið upp á bjórinn fyrir sjálfan úrslitaleik ameríska fóboltans, sem fram fór 3. febrúar.

Bud Light hefur lengi verið söluhæsti bjórinn í Bandaríkjunum en ætla má að hann sé með um 15,4 prósent markaðshlutdeild vestanhafs. Bjórinn kom fyrst á markað árið 1982 og er honum stundum lýst sem  „þunnum og vatnskenndum,“ en um leið að hann sé „frískandi.“ Bandarískir léttbjórar hafa verið að ná fótfestu hér á landi, en Coors Light rataði fyrst í hillur vínbúðanna í upphafi árs 2018.

Halldór Ægir segir að hægt verði að nálgast Bud Light í fjórum verslunum ÁTVR: í Kringlunni, Skútu­vogi, Hafnar­firði og Heið­rúnu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×