Viðskipti innlent

Heildarlaun bankastjóra Arion banka hækka um 4,9 prósent milli ára

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Heildarlaun bankastjóra Arion banka hækkuðu í fyrra um 4,9 prósent en hann er launahæsti bankastjóri þriggja stærstu viðskiptabankanna. Launahækkun bankastjóra Landsbankans, sem er í ríkiseigu, hefur verið harðlega gagnrýnd og krefst fjármálaráðherra svara frá bankaráði og stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu um laun æðstu stjórnenda.

Laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hækkuðu um 17% á milli áranna 2018 en mánaðarlaun hennar eru nú um 3,8 milljónir á mánuði. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka tók á sig ríflega 14% launalækkun undir lok síðasta árs en hún er engu að síður með um 4,2 milljónir á mánuði.

Ársreikningur Arion banka fyrir árið 2018 verður ekki birtur fyrr en á morgun en samkvæmt upplýsingum frá bankanum hækkuðu heildarlaun Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka um 4,9% milli ára og voru 6,2 milljónir á mánuði árið 2018. Föst laun hans hækkuðu aftur á móti um 8,8%. Til samanburðar hækkaði launavísitala á almennum vinnumarkaði um 6,5%.

Rétt er að halda til haga að Arion banki er fyrirtæki í einkaeigu og skráð félag á markaði á meðan ríkið fer með eignarhald í hinum bönkunum tveimur. „Við ákvörðun launa horfði stjórn bankans til launa forstjóra stórra hlutafélaga hér á landi, t.a.m. félaga sem skráð eru í kauphöll enda er Arion banki eitt af stærstu félögunum sem skráð eru í kauphöll hér á landi, en bankinn er skráður á markað bæði á Íslandi og í Svíþjóð,“ segir í skriflegu svari frá Haraldi Guðna Eiðssyni, upplýsingafulltrúa Arion banka, við fyrirspurn fréttastofu.

Launahækkanir bankastjóra Landsbankans hafa verið harðlega gagnrýndar undanfarna daga en sé litið til síðustu tveggja ára hafa laun bankastjóra hækkað um 82%. Í dag óskaði Bankasýsla ríkisins eftir ítarlegum greinargerðum frá Landsbanka og Íslandsbanka um launamál bankastjóra.

Þá hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sent stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu bréf þar sem óskað er eftir því að þær greini ráðuneytinu frá því hvernig stjórnarmenn hafa brugðist við tilmælum ráðuneytisins um að gæta varkárni við launaákvarðanir. Hann óskar svara innan viku.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.