Viðskipti innlent

Korta ræður tvo stjórnendur

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Sigtryggur A. Árnason.
Sigtryggur A. Árnason.
Korta hefur ráðið tvo stjórnendur. Sigtryggur A. Árnason tók við sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni og Andrea R. Þorláksdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður áhættustýringar, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.

Sigtryggur hefur 20 ára reynslu úr hugbúnaðargeiranum meðal annars við að leiða hugbúnaðararkitektúr, tæknilega sýn fyrirtækja og teymi í fjölþjóðlegu umhverfi. Hann var áður framkvæmdastjóri yfir R&D og hugbúnaðararkitekt á heildarlausn Novomatic Lottery Solutions (NLS) þar sem hann leiddi innleiðingu nýrrar tækni og betrumbætur á hugbúnaði NLS. Áður tók hann þátt í að leiða þróun hugbúnaðar fyrir Landsbankann í Lúxemborg og OZ.

Andrea hefur mikla reynslu af greiðslumiðlun eftir að hafa starfað hjá Borgun í yfir 17 ár. Eftir að hafa byrjað í þjónustu við viðskiptavini, vann Andrea í endurkröfudeild áður en hún flutti sig yfir í að þróa ferla fyrir erlend netviðskipti hjá Borgun. Síðustu átta ár hefur hún einblínt á áhættustýringu og eftirlit með seljendum, búið til og þróað ferla ásamt því að starfa að innleiðingu nýrra eftirlitskerfa.

Jakob Már Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, var ráðinn forstjóri færsluhirðingar­fyrirtækisins í desem­ber. Samhliða var hlutafé fyrirtækisins aukið um 1.050 milljónir króna. Forstjórinn lagði til um 80 milljónir króna. Kvika banki er stærsti einstaki hluthafi félagsins með yfir 50 prósenta eignarhlut.



Andrea R. Þorláksdóttir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×