Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Akureyri 30-22 | Öruggt hjá Mosfellingum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir að Varmá skrifar
vísir/bára

Afturelding vann öruggan sigur á Akureyri í fyrsta leik 15. umferðar Olísdeildar karla í handbolta í dag er liðin mættust í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ.

Markverðir liðanna byrjuðu leikinn á því að stimpla sig inn, vörðu báðir fyrstu skotin sem þeir fengu á sig. Sturla Magnússon skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Aftureldingu og kom þeim í 2-1, eftir það leiddu heimamenn allan tímann.

Sóknarleikur gestanna var frekar hægur á meðan Afturelding fékk nokkur auðveld, hröð mörk. Þegar líða tók á seinni hálfleik vöknuðu gestirnir aðeins til lífsins og komu í veg fyrir að leikurinn væri búinn strax, en munurinn var þó fjögur mörk í hálfleik 16-12.

Heimamenn skoruðu fyrstu mörk seinni hálfleiksins og voru ekki lengi að gera út um leikinn. Það komu kaflar í seinni hálfleik þar sem Akureyringar náðu aðeins að saxa á forskotið, en það má líklega skrifa meira á að heimamenn voru aðeins farnir að slaka á frekar heldur en bætingu í leik gestanna.

Þegar upp var staðið munaði átta mörkum á liðunum, Afturelding vann 30-22 sigur.

Af hverju vann Afturelding?
Heimamenn voru sterkari allan tímann í dag. Þeir náðu að koma sér í þægilega forystu um miðjan fyrri hálfleikinn og það hjálpaði þeim mikið, enda ljóst að það er mun erfiðara að elta og reyna að sækja á forskot. Þeir kláruðu svo leikinn snemma í seinni hálfleik var alveg klárt hvoru megin sigurinn myndi detta

Hverjir stóðu upp úr?
Þetta var mikil liðsframmistaða þeirra Mosfellinga en Árni Bragi Eyjólfsson var þeirra markahæstur með sex mörk. Það fór lítið fyrir honum í fyrri hálfleik en hann steig upp í þeim seinni. Júlíus Þórir Stefánsson var öflugur að vanda.

Hjá Akureyri var bara einn maður í sóknarleiknum lengst af, Ihor Kopyshynskyi.  

Hvað gekk illa?
Uppstilltur sóknarleikur var ekki vinur Akureyringa í dag og þeir áttu erfitt með að finna lausnir á vörn heimamanna.

Þá var markvarslan ekkert sérstök hjá Norðanmönnum. Hún var kannski ekki arfaslök en var þó nokkuð fyrir neðan par. Arnar Þór Fylkisson kom inn síðustu tíu mínúturnar og stóð sig ágætlega, en það var bara of seint.

Hvað gerist næst?
Það eru bikarleikir um næstu helgi og því ekki spilað í deildinni. Þar er Afturelding enn í fullu fjöri og fær FH í heimsókn á þriðjudaginn.

Einar Andri Einarsson vísir/bára

Einar Andri: Liðsheildin frábær
„Mér fannst liðsheildin frábær. Allir leikmennirnir spiluðu frábærlega í dag að mínu mati. Við spiluðum frábæra vörn í 60 mínútur og Arnór góður, virkilega góður dagur hjá okkur í dag,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í leikslok í dag.

„Þeir voru í vandræðum með að opna vörnina hjá okkur og þurftu að hafa fyrir öllu. Það var margt sem var í lagi hjá okkur og við hittum á góðan dag.“

Hvað var það besta við leik Aftureldingar í dag að mati Einars?

„Liðsheildin. Ég held það hafi allir útispilararnir skorað mark og allir sem komu inn voru virkilega klárir. Það var bara mikil liðsheild í dag.“

En sá hann eitthvað sem mátti betur fara?

„Við þurfum bara að halda áfram að vinna í öllu. Við erum búnir að vera óstabílir í vetur að mínu mati, getum verið frábærir en svo dettum við niður á milli. Við þurfum bara að halda áfram að þróa okkar leik og það eru sjö leikir eftir til þess að vera í toppstandi í vor,“ sagði Einar Andri.

Fyrrum landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson á ærið verkefni fyrir höndum á Akureyri vísir/ernir

Geir: Vorum ekki tilbúnir
„Eiginlega flest allt fór úrskeiðis, við mættum eiginlega aldrei til leiks,“ sagði Geir Sveinsson, þjálfari Akureyri, í leikslok.

„Við vorum bara ekki tilbúnir í það sem þurfti og okkur vantaði öllum eitthvað miklu meira en það sem við vorum að sýna í dag.“

Flest allt fór úrskeiðis, var þá eitthvað jákvætt? „Ja, ég gat rúllað liðinu, allir fengu að spila og fara inn á. Mikið af ungum strákum sem fengu tækifæri, en úrslitin eru vonbrigði.“

Akureyri er ekki lengur með í bikarkeppninni og því er tveggja vikna frí framundan hjá þeim. Er það kannski kærkomið fyrir Geir, tiltölulega nýkominn inn í starfið, til þess að vinna meira með liðinu?

„Já, já. Við reynum auðvitað að nýta þann tíma eins vel og mögulegt er. Þetta eru tvær vikur og miðað við það sem við sýndum í dag þá veitir okkur ekkert af því.“

Einar Ingi Hrafnsson vísir/daníel

Einar Ingi: Var í okkar höndum
„Ótrúleg barátta og við stöndum góða vörn allan leikinn. Fáum Arnór í markinu og náum að keyra hraðann upp aðeins í sókn. Það skilar okkur sigri á endanum,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson, leikmaður Aftureldingar.

Eftir að Afturelding náði að keyra upp forskot snemma þá var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda.

„Nei, þá var þetta bara í okkar höndum, að halda „conceptinu“, rúlla sóknarleiknum og standa vörnina. Þá svona náum við að halda þessu forskoti og sigla þessu.“

„Það koma kaflar inn á milli þar sem við erum í klaufalegum sendingum og fáum það aðeins í bakið á okkur, erum ekki að velja aðeins rétt. Við munum taka það aðeins út.“

„Svo er jákvætt sem hefur vantað í síðustu tvo leiki að við erum að spila aðeins lengur og opna bæði fyrir línu og horn og fá betri sénsa,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson.
 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.