Körfubolti

Luka Doncic segir auðveldara að skora í NBA-deildinni heldur en í Evrópuboltanum

Anton Ingi Leifsson skrifar
„Af hverju er þetta svona létt?“
„Af hverju er þetta svona létt?“ vísir/getty

Luka Doncic, leikstjórnandi Dallas Mavericks í NBA-deildinni, hefur gert það gott síðan að hann gekk í raðir Dallas síðasta sumar frá Real Madrid á Spáni.

Doncic var fyrst um sinn valinn í NBA-valinu af Atlanta Hawks en var svo skipt yfir til Dallas í staðinn fyrir Trae Young. Sú skipti hafa leynst happafengur fyrir Dallas en Doncic er talinn einn efnilegasti leikmaður heims.

Doncic er fæddur 1999 og er frá Slóveníu en hann spilaði með Real Madrid frá 2015 og þangað til síðasta sumar. Hann vann Evrópudeildina með þeim síðasta vor en hann var valinn mikilvægasti leikmaður keppninnar nítján ára gamall.

„Það er auðvitað auðveldara að skora í NBA en í Evrópu. Í Evrópu eru vellirnir minni og hér er þriggja sekúndna reglan. Ég held að það sé auðveldara að skora hérna,“ sagði Doncic í viðtali við spænska miðilinn Movistar+.

Doncic hefur verið hælt mikið fyrir framgöngu sína í NBA-deildinni á leiktíðinni og hefur meðal annars LeBron James, einn besti körfuboltamaður allra tíma, stigið fram og hrósað Doncic.

„Ég man eftir því viðtali. Það var sérstakt fyrir mig og fyrst og fremst var það sérstakt að spila gegn honum og svo segir hann þetta. Það var enn meira sérstakt fyrir mig,“ en aðspurður um drauma sína var svarið einfalt:

„Draumur minn er að vinna hring í NBA. Það er klárt,“ en þeir sem vinna NBA-deildina fá sérstakan hring frá bandaríska körfuboltasambandinu.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.