Körfubolti

Tókst í nótt að gera það með Lakers sem Kobe Bryant náði aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Kuzma og Kobe Bryant.
Kyle Kuzma og Kobe Bryant. Vísir/Samsett/Getty

Kobe Bryant skoraði 40 stig eða meira í 122 leikjum með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni en hann náði aldrei 40 stiga leik eins og Kyle Kuzma í síðustu nótt.

Kyle Kuzma spilaði bara þrjá fyrstu leikhlutana í sigri Lakers á Detroit Pistons og varð fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að skora 41 stig án þess að ná því að spila í 30 mínútur.

Kobe Bryant náði því aldrei enda spilaði hann yfir 30 mínútur í nær öllum leikjum sínum.Luke Walton, þjálfari Lakers, hrósaði líka stráknum eftir leikinn og vildi líka vekja athygli á því að þetta var ekki alveg tilviljun.
Lakers liðið spilaði ekki kvöldið áður en þá var Kyle Kuzma í íþróttasalnum að taka 500 skot.

Í leiknum á undan hafði Kuzma aðeins hitt úr 4 af 20 skotum sínum og hann var staðráðinn að finna skotið sitt aftur. Það tókst heldur betur eftir þessa löngu skotæfingu.

Kyle Kuzma tók 24 skot í leiknum og hitti úr 16 þeirra. Hann var með 22 stig bara í þriðja leikhlutanum og setti alls niður fimm þrista í leiknum. Kuzma gerði reyndar lítið annað en að skora því hann náði ekki að gefa eina stoðsendingu og var bara með tvö fráköst.Þetta var samt risakvöld fyrir þennan 23 ára strák. Lakers-liðið var áfram án hins meidda LeBron James og þurfti virkilega á sóknarframlagi að halda.

Hann var líka að spila á móti æskuliðinu sínu því Kuzma var níu ára gamall í Flint í Michihan fylki þegar Detroit Pistons vann NBA-titilinn árið 2004. Pistons vann þá Lakers óvænt í lokaúrslitunum og auðvitað hélt strákurinn með Detroit Pistons.Það eru ekki allir sem ná því að skora 40 stig í leik í NBA-deildinni hvað þá að gera það án þess að spila fjórða leikhlutann.

Í rauninni hafa aðeins fjórir aðrir leikmenn náð því í NBA-deildinni á þessu tímabili en hinir eru þeir Klay Thompson, Stephen Curry, James Harden og LeBron James.  


NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.