Körfubolti

Curry orðinn sá þriðji þristahæsti og Harden setti sögulega þrennu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stephen Curry kann að skjóta körfubolta
Stephen Curry kann að skjóta körfubolta vísir/getty

Stephen Curry er orðinn þriðji þristahæsti leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar og James Harden náði sér í sögulega þrefalda tvennu í nótt þegar níu leikir fóru fram í NBA deildinni.

Hinn þrítugi Curry er ein af stórstjörnum meistaraliðs Golden State Warriors og hann var enn einu sinni drifkrafturinn í sóknarleik Warriors sem vann Chicago Bulls 146-109 á heimavelli.

Curry skoraði fimm þriggja stiga körfur í nótt og er því kominn með 2285 þriggja stiga körfur á ferlinu. Með þriðju þriggja stiga körfu kvöldsins, númer 2283, fór Curry yfir Jason Terry á listanum yfir þá menn með flesta þrista í sögu NBA og situr nú í þriðja sæti.
Þeir sem eru nú á undan Curry eru Reggie Miller með 2560 þrista og efstur er Ray Allen sem skoraði 2973 þrista á ferlinum.

„Þetta er mjög sérstakt afrek. Þessir tveir sem eru eftir fyrir ofan mig, þetta eru þeir sem ég horfði á sem barn, þeir voru átrúnaðargoðin mín,“ sagði Curry eftir leikinn.

Curry skoraði 28 stig í leiknum í nótt, Kevin Durant bætti 22 stigum við í mjög öruggum sigri Warriors.
Í Houston unnu heimamenn öruggan sigur á Cleveland Cavaliers 141-113. James Harden hefur verið óstöðvandi fyrir Houston undanfarið og hann nældi sér í sína þriðju þrennu í síðustu sex leikjum.

Þrennan er þó merkileg fyrir þær sakir að Harden náði henni á innan við hálftíma.

Samkvæmt Elias Sports Bureau varð Harden fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til þess að ná í þrennu með 40 stigum á minna en hálftíma. Mike D'Antoni, þjálfari Rockets, var búinn að láta Harden vita af því að hann yrði hvíldur í fjórða leikhluta þar sem sigurinn var aldrei í hættu fyrir Houston.

Harden skoraði 43 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar á 29 mínútum og 34 sekúndum.
Úrslit næturinnar:
Philadelphia 76ers - Atlanta Hawks 121-123
Washington Wizards - Milwaukee Bucks 113-106
New York Knicks - Indiana Pacers 106-121
Toronto Raptors - Brooklyn Nets 122-105
Houston Rockets - Cleveland Cavaliers 141-113
Minnesota Timberwolves - Dallas Mavericks 115-119
Utah Jazz - Los Angeles Lakers 113-95
Portland Trail Blazers - Charlotte Hornets 127-96
Golden State Warriors - Chicago Bulls 146-109
 

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.