Skoðun

Hvenær verður barn til?

Hrefna Rós Wiium skrifar
Hvort er litla 18-22 vikna gamla ófædda veran í móðurkviði barn eða ómerkilegur frumuklasi? Það er mjög villandi að tala við verðandi foreldra um lítið barn aðra stundina sem er að vaxa og dafna í móðurkviði; sparka og teygja sig– en hina stundina um eitthvað sem er það ómanneskjulegt að það sé í lagi að eyða því án eftirsjár.

Hvenær getum við sagt með vissu að kona gangi með BARN?

Mín persónulega skoðun skiptir ekki öllu máli í þessum efnum þótt hún eigi rétt á sér eins aðrar ólíkar skoðanir. Það er mikilvægt að skoðanir allra, sem og faglegt álit sérfræðinga, fái ríkan hljómgrunn. Það sem skiptir máli er að við sem siðmenntað samfélag ræðum þessi mál frá öllum hliðum og setjum öll málsgögn á borðið til að fyrirbyggja það að við samþykkjum eitthvað sem reynist síðan vera í mótsögn við okkar menningarlegu gildi og siðferði.

Skilaboðin út í þjóðfélagið eru mjög ruglingsleg og misvísandi - og ekkert skrýtið að fólk takist á um það á hvaða stundu lítið líf breytist í barn. Skoðanir heilbrigðisfulltrúa og sérfræðinga virðast sömuleiðis stangast á þegar kemur að því að skilgreina lítið líf í móðurkviði.

Við getum ekki leyft okkur að hringla með þetta því að þetta er viðkvæmt mál fyrir fólki; og þá ekki síst foreldrum - bæði verðandi og vönum. Það er glæfralegt að ákveða hvenær megi eyða lífi í móðurkviði án þess að hafa fyrst staðfest með sannanlegum og óyggjandi hætti hvort litla veran sé barn eða ekki.

Ef þetta er ekki barn sem kona gengur með fyrstu 22 vikurnar, er ekki brýnt að fyrirbyggja notkun misvísandi orða sem heilbrigðisfulltrúar og aðrir fagmenn nota til að skilgreina lítið líf á þessum tíma meðgöngunnar? Það er ósanngjarnt að heilbrigðisfulltrúar segi við verðandi mæður að 18 vikna gömlu barninu líði vel eina stundina og fullvissi þær hina stundina um að það sé ekki of seint að “rjúfa þungun” því að ekki sé um barn að ræða.

Orðabækur segja að fóstur sé barn og vefsíður á vegum heilbrigðisstofnana tala um þessar 18-22 vikna gömlu verur sem börn og verðandi mæður sem barnshafandi konur. Þegar lýsingar sem þverskallast á eru notaðar af fagfólki til að skilgreina litlu veruna á þessum tíma meðgöngunnar, er ástæða að ætla að þessir aðilar séu ekki sammála um hvort það sé siðferðislega rétt að rjúfa þungun á umræddum tíma. Í augum margra starfandi fagaðila og sérfræðinga er þungunarrof það sama og að enda líf mannveru þótt fjölmargir aðrir taki aftur á móti ekki í sama streng. En maður hefur ekki á tilfinningunni að fullvissa fagmanna sé fyrir hendi um hvenær barn verður til.

Auðvitað vill maður ekki trúa því að fagaðilar forðist að nota orðið „barn“ til að friða samvisku sína og skjólstæðinga sinna áður en það ráðleggur fóstureyðingu eða veitir leyfi til þungunarrofs, en það er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort sú sé raunin í ljósi þess hversu teygð og tilfinningaþrungin umræðan er orðin um þessi mál.

Fagmenn þurfa að vita nákvæmlega og vera sammála um hvenær kona hættir að ganga með svokallaðan vísi að mannlegri veru, og byrjar að ganga með barn. Þetta er ekki eitthvað sem fólk á að renna blint í sjóinn með. En því miður hefur fagfólki heilbrigðisstéttarinnar ekki tekist hingað til að gefa okkur nákvæma tímasetningu. Hún hefur alltaf verið mjög teygjanleg. Þá hafa skekkjumörk, undantekningar og misræmi fagaðila á milli ekki ýtt undir traust fólks á framsettum kenningum.

Oft virðist sem umræðan og orðavalið um ófætt líf haldist í hendur við fyrirhuguð örlög þeirra. Það kann sumum að finnast einkennilegt að þegar 22 vikna fyrirburi heldur lífi er hann færður í arma móður sinnar sem lítið barn en hins vegar ef þessi sami fyrirburi fæðist ekki sökum þungunarrofs eða fóstureyðingar, er gjarnan sagt að þessi lífvera hafi í raun aldrei orðið að barni. Eru slíkar fullyrðingar byggðar á réttum vísindum eða eru vísindin sveigð og löguð að aðstæðum hverju sinni? Þarna er enn einhver óvissa.

Það er ljóst að fólki finnst þetta allt orðið frekar þokukennt - enda er umræðan um fóstureyðingar/þungunarrof skiljanlega orðin mjög eldfim vegna þeirrar óvissu sem einkennir efnið.

Margir vilja þá meina að staðsetning barnsins sé lykilatriði, óháð aldri fóstursins. Sem sagt, ef það er inni í móðurkviði þá telst það ekki vera barn, en ef það er fyrir utan móðurkviðinn þá er það skilgreint sem barn. Margir eiga þó erfitt með að sætta sig við þessa kenningu. Blóm er víst blóm hvort sem það er rótfast í jörðu eða í vasa innanhúss. Staðsetning breytir ekki grunneðli þess sem vex og dafnar. Það reynist því mörgum erfitt að samþykkja að það sé staðsetningin sem ákvarðar hvort lífverur séu lifandi manneskjur þótt það sé skoðun sumra. Umrædd lífvera getur apeins verið eitt af tvennu, þ.e. barn eða ekki barn - óháð því hvort hún sjáist með berum augum eða ekki.

Heilbrigðisfulltrúi birti grein fyrir stuttu síðan þar sem hann ræddi um nokkrar aðstæður þar sem honum finnst ásættanlegt að eyða fóstri. Samkvæmt þeirri grein virtist réttlætanlegt að deyða 18-22 vikna gamalt fóstur í móðurkviði ef framtíð barnsins virtist ekki nægilega björt, t.d. vegna sálræns, félagslegs eða tilfinningalegs ástands móðurinnar.

Greinin tókst þó því miður aldrei á við rót vandans í þessari flóknu umræðu, þ.e. hvort það sé siðferðislega rétt að enda líf í móðurkviði ef lífið er skilgreint sem barn og þar af leiðandi lifandi manneskja. Þessi fagaðili freistaði fremur þess að vekja samkennd með verðandi mæðrum og fjölskyldum á meðan hún virtist í skrifum sínum forðast að beina athyglinni að lífinu í móðurkviði sem hún þó vildi meina að væri í lagi að deyða í neyð. Það hlýtur þó einnig að þurfa að skoða þessi mál frá sjónarhóli lífsins í móðurkviði - ekki síst ef ljóst er að um lifandi barn er að ræða. Það er óeðlilegt að skoða mikilvæg og alvarleg mál frá aðeins einni hlið áður en einhver afdrifarík ákvörðun er tekin.

Ef niðurstaðan er sú að um 18-22 vikna lifandi barn sé að ræða, er ljóst að leita þarf annarra leiða en framlengingu fóstureyðinga/þungunarrofs eins og frumvarpið leggur til. Það þarf auðvitað að koma til móts við móðurina sem kann að vera í mjög erfiðum aðstæðum; þá hugsanlega með öllu ófær um að sjá um barnið. Heilbrigðiskerfi okkar hlýtur að bera skylda að finna bestu úrlausn fyrir bæði móður og barn; að vernda framtíð þeirra beggja. Það þarf enginn að efast um að fagfólk heilbrigðisstéttarinnar sé ekki fært um að finna góðar lausnir á erfiðum málum, sé það einlægur ásetningur þeirra að standa vörð um lífsrétt þeirra sem teljast vera fullgildar manneskjur.

Það væri athyglisvert að sjá lögfræðing 20 vikna lífs í móðurkviði og lögfræðing verðandi móður takast á í réttarsal um lífsrétt fósturs/barns og siðferðislegt lögmæti þungunarrofs, einmitt á þessu stigi meðgöngunnar. Auðvitað mun það líklega aldrei gerast en kannski myndu slík réttarhöld leiða margt í ljós sem kannski fær ekki andrúm í umræðunni í dag. Það vantar visst jafnvægi í umræðuna á meðan aðeins annar aðilinn, í þessu tilviki móðirin, virðist vera með opinberan verjanda. Þar sem málið er flókið og umdeilt er nauðsynlegt að fagaðilar kryfji báðar hliðar málsins til mergjar.

Þá vaknar einnig sú spurning, að ef fóstureyðingar/þungunarrof snýst í mörgum tilvikum um að forða barninu frá vafasamri eða erfiðri framtíð, þyrftum við þá ekki sem samfélag að íhuga að teygja „líknandi hönd“ okkar inn á fleiri staði innan heilbrigðisgeirans en fæðingarstofur. Það er fjöldi fólks víðs vegar í kerfinu sem á sér ekki bjarta framtíð vegna eiturlyfjanotkunar, grófra kynferðisbrota og alvarlegra sjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt. Á meðan við virðum þeirra lífsrétt og réttum þeim okkar hjálparhönd - og á meðan líknardráp er ólöglegt hér á landi, er spurning hvort okkur beri ekki siðferðisleg skilda til að virða lífsrétt barnsins og reyna að byggja því eins bjarta framtíð og hægt er miðað við aðstæður? Þetta er spurning sem á rétt á sér, en það er langt í frá að við séum búin að sammælast sem þjóð um hvað rétt viðhorf sé í þessum málum.

Grundvallarspurningarnar varðandi umrædda framlengingu á fóstureyðingum/þungunarrofi eru eftirfarandi, og er nauðsynlegt að svara þessum spurningum hverju sinni áður en fóstureyðing/ þungunarrof er framkvæmd, þ.e. ef búa á til fullgilda reglu sem kemur í veg fyrir að siðferðislegt brot gegn lifandi manneskju eigi sér stað:

1) Er litla 18-22 vikna veran hugsanlega lifandi barn?

2) Er í lagi að deyða lifandi barn?

Skoðanir heilbrigðisfulltrúa og sérfræðinga mega ekki skarast í þessum efnum; ekki þegar um líf manneskju er að tefla. Svörin verða að vera afdráttarlaus og kristalskýr áður en við samþykkjum umrætt frumvarp um framlengingu fóstureyðinga/þungunarrofs.

Hrefna Rós Wiium sjúkraliði.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×