Luke Walton, nýr þjálfari Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið kærður fyrir kynferðislega áreitni.
Walton er sakaður um að hafa áreitt sjónvarpskonuna Kelli Tennant á hótelherbergi fyrir þremur árum. Walton var þá aðstoðarþjálfari Golden State Warriors en tók skömmu síðar við Los Angeles Lakers.
Walton á einnig að hafa áreitt Tennant á góðgerðasamkomu í maí 2017.
Hann hætti sem þjálfari Lakers 12. apríl síðastliðinn. Degi síðar var hann ráðinn til Sacramento.
Í yfirlýsingu frá Sacramento kemur fram að félagið sé meðvitað um ásakarnir á hendur Walton og það sé að afla frekari upplýsinga.
Walton stýrði Lakers í þrjú tímabil en tókst aldrei að koma liðinu í úrslitakeppnina.
Þjálfaraleit Lakers stendur enn yfir. Monty Williams, aðstoðarþjálfari Philadelphia 76ers, þykir einna líklegastur til að taka við liðinu.
