„Þetta er sigur fyrir nýsköpun, samkeppni og réttarríkið,“ sagði Bombardier í yfirlýsingu. Þetta væri einnig sigur fyrir bandarísk flugfélög og bandarískan almenning.
Úrskurðinum var einnig ákaft fagnað á Norður-Írlandi þar sem eittþúsund manns vinna við smíði vængja þotunnar í verksmiðju Bombardier í Belfast.
Viðskiptastríð var í uppsiglingu milli Kanada og Bretlands annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar vegna málsins. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddi málið við Trump Bandaríkjaforseta á fundi þeirra í Davos í Sviss. May fagnaði úrskurðinum í gær, þetta væru góðar fréttir fyrir breskan iðnað.
Bandarísku Boeing-verksmiðjurnar kvörtuðu undan Bombardier síðastliðið vor og sögðu fyrirtækið njóta óeðlilegra ríkisstyrkja eftir að Delta, næststærsta flugfélag Bandaríkjanna, keypti 75 Bombardier-þotur. Alþjóðaviðskiptanefnd Bandaríkjanna komst hins vegar að þeirri einróma niðurstöðu, með fjórum atkvæðum gegn engu, að Bombardier-þotan skaðaði ekki bandaríska framleiðslu og féllst á þau rök Delta að Boeing byði ekki upp á sambærilegan valkost við Bombardier-þotuna, í stærðarflokknum 100-150 sæta vélar.
Stöð 2 fjallaði um málið í lok desember. Hér má sjá þá frétt en þar sést Bombardier-þota í flugtaki frá Reykjavíkurflugvelli: