„Við litum kannski ekki æðislega út í þessum leikjum gegn Þjóðverjum en mér finnst við hafa unnið í því. Mikið búið að fínpússa og tala. Farið vel yfir hlutina á æfingum. Ég held við eigum eftir að koma mörgum á óvart,“ segir Aron brattur.
„Ég fer með þær væntingar inn í Svíaleikinn að við vinnum þá. Það kemur ekkert annað til greina í hausnum hjá öllum í þessu liði.“
Aron hefur verið ánægður með æfingarnar og telur liðið vera með lausnirnar sem þarf.
„Ég tel okkur vera með góða leikáætlun fyrir Svíaleikinn og þá sérstaklega í sókninni. Ég fer „cocky“ inn í þennan leik.“
Aron er orðinn leiðtogi liðsins og til hans er leitað í að draga vagninn ef ekki gengur nógu vel. Hann fagnar því.
„Ég hef verið með stórt hlutverk en samt öðruvísi. Þetta er samt gaman. Það eru ungir gæjar þarna að stíga sín fyrstu skref og ég var þar fyrir ekki svo löngu síðan. Samt nokkur ár. Það er gaman að geta miðlað reynslu sinni við þá. Þeir hlusta líka vel. Þeir vilja ná árangri og bæta sig. Ég er ánægður með þessa nýju gæja.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17.15 og er í beinni textalýsingu á Vísi.