Körfubolti

Rockets jafnaði metin gegn Warriors

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Harden er hér að skora fyrir sitt lið í nótt.
Harden er hér að skora fyrir sitt lið í nótt. vísir/getty
Houston Rockets ætlar ekkert að láta meistara Golden State Warriors valta yfir sig í úrslitaeinvígi Vesturdeildar NBA-deildarinnar. Annar leikur liðanna fór fram í nótt og Rockets gerði sér lítið fyrir og pakkaði Warriors saman, 127-105.

James Harden skoraði 27 stig og tók 10 fráköst fyrir Houston í nótt. Eric Gordon var einnig með 27 stig og PJ Tucker bætti 22 við. Kevin Durant var allt í öllu hjá Warriors með 38 stig en allir aðrir leikmenn Warriors einfaldlega fundu sig ekki í leiknum.

Stephen Curry var eini leikmaður liðsins fyrir utan Durant sem komst yfir tíu stigin í leiknum en hann gat samt ekki neitt. Curry var með 16 stig og hitti aðeins úr 7 af 19 skotum sínum.

Curry hefur verið mikið meiddur í vetur og margir óttast að hann sé enn að glíma við meiðsli. Sjálfur neitar hann því.

„Mér líður frábærlega en ég er bara ekki að finna taktinn,“ sagði Curry.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×