Viðskipti innlent

Eignast ekki stærri en fimm prósenta hlut

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Fréttablaðið/Valli
Lífeyrissjóðir munu líklega kaupa hlut í Íslandsbanka og Landsbankanum ef hlutabréf í þeim verða skráð á markað en þeir horfa ekki til þess að eignast stærri en fimm prósenta hlut. Þetta segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, í samtali við Bloomberg.

„Það væri ekki gott fyrir lífeyrissjóð að eiga of stóran hlut í banka,“ segir hann. „Við verðum taka með í reikninginn að við keppum við bankana og erum stórir viðskiptavinir þeirra, auk þess sem við erum eigendur í mörgum fyrirtækjum sem eru einnig viðskiptavinir bankanna.“

Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra sem vann hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið taldi æskilegt að stjórnvöld seldu Íslandsbanka í heild eða að hluta til erlends banka. Samhliða væri ástæða til þess að hefja undirbúning að skráningu og sölu á hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum.

Haukur segir að íslenskir fjárfestar séu ekki sannfærðir um að margir áhugasamir kaupendur finnist að eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum. „Evrópskir bankar hafa ekki beinlínis staðið í röð til þess að kaupa íslenska banka og ég sé það ekki breytast í náinni framtíð,“ nefnir Haukur.

Fram kom í áðurnefndri hvítbók að dreift eignarhald ólíkra áhrifafjárfesta, meðal annars erlends banka, í bland við þátttöku almennings væri ákjósanlegasta fyrirkomulag eignarhalds á bönkunum til framtíðar. Var auk þess bent á að ríkissjóður væri, sem eigandi Íslandsbanka og Landsbankans, með um 300 milljarða króna bundna í eignarhlutum í bankakerfinu. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×