Körfubolti

Vann loksins stóra bróður sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Seth Curry.
Stephen Curry og Seth Curry. GETTY/Ezra Shaw
Curry-bræðurnir eru báðir að spila í NBA-deildinni eins og faðir þeirra, Dell Curry, gerði í sextán ár. Eldri bróðirinn missti takið í nótt.

Stephen Curry er 30 ára og á sínu tíunda tímabili en Seth Curry er 28 ára og á sínu sjötta tímabili. Bræðurnir mættust í nótt og þá gerðist það sem hafði aldrei gerst áður.





Stephen Curry hefur verið stjarnan og hafði fagnað sigri í öllum innbyrðisleikjum bræðranna þar til í nótt.

Stephen Curry hefur þrisvar sinnum unnið NBA-titilinn með Golden State Warriors og Seth Curry hefur spilað með sex félögum síðan að hann kom fyrst inn í deildina fyrir fimm árum.  

Núverandi lið Seth Curry er Portland Trail Blazers en hann hefur einnig spilað með Memphis Grizzlies, Cleveland Cavaliers, Phoenix Suns, Sacramento Kings og Dallas Mavericks. Hann fékk næstum því engin tækifæri með Grizzlies og Cavaliers en fyrsta alvöru tækifærið kom með Sacramento Kings tímabilið 2015-16.

Sex sinnum höfðu þeir bræður mæst í leik í NBA-deildinni og alltaf vann Stephen Curry. Í nótt náði litli bróðir hinsvegar langþráðum sigri.

Seth Curry og félagar í Portland Trail Blazers unnu þá 110-109 sigur á Golden State Warriors í framlengdum leik.

Seth Curry spilaði í 18 mínútur í leiknum og var með 11 stig og þrjár þriggja stiga körfur. Hann hitti úr 3 af 5 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Stephen Curry var með 29 stig og 7 stoðsendingar á 42 mínútum en hann hitti úr 6 af 15 þriggja stiga skotum sínum og aðeins 1 af 3 vítum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×