Körfubolti

Arnar: Þið getið prófað að spyrja í næstu viku en fáið sama svar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar á hliðarlínunni
Arnar á hliðarlínunni vísir/bára
Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar var sáttur með sigurinn í Grindavík en var ekki ánægður með varnarleik sinna manna.

„Ég er mjög ánægður að við höfum náð að klára þetta, Grindavík er með hrikalega gott lið. Nýju leikmennirnir þeirra smellapassa inn í þetta. Við réðum illa við þá, þeir skoruðu að vild og guði sé lof skoruðum við vel í dag. Þess vegna slapp þetta til,“ sagði Arnar við Vísi eftir leikinn í dag.

Hinn finnski Antti Kanervo var frábær í dag og skoraði 40 stig, þar af 25 stig í fyrri hálfleik.

„Hann var góður í dag og liðið að gera vel fyrir hann. Hann var ekkert bara opinn „af því bara“. Hrós á allt liðið fyrir að hann fái þetta mikið af góðum skotum.“

Grindavík náði forystu fyrir lokafjórðunginn eftir frábæran þriðja leikhluta. Varnarleikur Stjörnunnar lagaðist hins vegar töluvert undir lokin og það gerði gæfumuninn.

„Þeir skoruðu 31 stig í þriðja leikhluta sem er alveg galið. Okkur fannst alveg nóg að þeir hefðu sett 40 stig í fyrri hálfleik og hvað þá bæta við þessu í þriðja. Varnarleikurinn hélt aðeins betur í síðasta leikhlutanum en var heilt yfir ekki góður.“

„Það er ennþá mikið eftir af mótinu. Við erum bara að safna sigrum og bæta okkur leik fyrir leik. Ég veit ekki einu sinni hvernig taflan lítur út, ég skoða það þegar 4-5 umferðir eru eftir.“

Blaðamanni lá forvitni á að vita hvað Arnari fyndist um kæruna sem hann hefur fengið frá KKÍ fyrir atvikið í leiknum gegn KR þegar hann hljóp inn á völlinn til að mótmæla dómi.

„Ég tjái mig ekki um dómgæslu við fjölmiðla.“

Sérðu eftir þessu?

„Ég ætla ekki að tjá mig um þetta atvik, alveg eins og ég sagði síðast.  Þið getið prófað að spyrja mig í næstu viku en þið fáið sama svar. Þið getið haldið þessu út leiktíðina,“ sagði Arnar að lokum við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×