Viðskipti innlent

Skúli segir fleiri fjárfesta hafa áhuga á WOW air

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skúli Mogensen er stofnandi WOW air.
Skúli Mogensen er stofnandi WOW air. Fréttablaðið/Anton
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow air, segir að aðrir fjárfestar hafi sýnt flugfélaginu áhuga og að verið sé að fylgja þeim áhuga eftir samhliða viðræðum við Icelandair vegna fyrirhugaðra kaupa þess á WOW air.

Þetta kemur fram í tölvupósti Skúla til starfsmanna flugfélagsins. Í dag tilkynnti Icelandair að ólíklegt væri að allir fyrirvarar í kaupsamningi félagsins á öllu hlutafé í WOW Air yrðu uppfylltir í tæka tíð fyrir hluthafafund félagsins þar sem hin fyrirhuguðu kaup verða tekin fyrir, næstkomandi föstudag.

Áður höfðu viðskipti með hlutabréf í Icelandair verið stöðvuð í kauphöllinni að beiðni Fjármáleftirlitsins sem sagði það hafa verið gert til að vernda jafnræði fjárfesta.

Í tölvupóstinum, sem skrifaður er á ensku, segir Skúli að ljóst sé að það muni taka lengri tíma en gert var ráð fyrir að ganga frá samningum við Icelandair og að kaupin séu eftir sem áður háð áreiðanleikakönnun (e. due dilligence). Í tilkynningu Icelandair um hin fyrirhuguðu kaup á WOW frá því í byrjun mánaðarins var einmitt vísað í að kaupin væru meðal annars háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Segir Skúli að ljóst sé að hin fyrirhuguðu kaup Icelandair á WOW séu flókin og því komi það ekki á óvart að þau séu að dragast lengur en áætlað var, enda þurfi að fá marga hluti á hreint á mjög skömmum tíma.

Hlutabréf í Icelandair hækkuðu í morgun áður en viðskipti með bréfin voru stöðvuð. Frá því að opnað var fyrir viðskipti eftir hádegi hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 5,57 prósent í 179 milljón króna viðskiptum.


Tengdar fréttir

Viðskipti með bréf í Icelandair stöðvuð

Kauphöllin hefur stöðvað öll viðskipti með bréf í flugfélaginu Icelandair. Hvorki er hægt að kaupa né selja bréf í flugfélaginu af þeim sökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×