Viðskipti innlent

Með flóknari samrunamálum hér á landi

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW air í gær en kaupin eru meðal annars háð skilyrði Samkeppniseftirlitsins.
Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW air í gær en kaupin eru meðal annars háð skilyrði Samkeppniseftirlitsins. vísir/vilhelm
„Þetta er með flóknari samrunum til þess að eiga við,“ segir Eggert B. Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti, um kaup Icelandair Group á WOW air. Því sé spurning hvort Samkeppniseftirlitið vísi málinu til eftirlitsstofnunar EFTA sem taki það til ítarlegrar skoðunar í samráði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

„Það væri einfaldast að gera það af því að það eru svo margir markaðir í Evrópu sem koma við sögu í málinu. Hver flugleið – borg til borgar – er sérstakur markaður sem þarf að rannsaka nánar,“ nefnir Eggert.

Samkvæmt reglum samkeppnisréttar getur samruni fyrirtækis á fallanda fæti, til dæmis fyrirtækis á barmi gjaldþrots, verið heimilaður þrátt fyrir að samruninn sé skaðlegur samkeppni. Samkeppniseftirlitið hefur í nokkrum tilfellum fallist á slík sjónarmið.

Eggert B. Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti.
Eggert segir að jafnvel þótt Icelandair byggi á því að WOW sé félag á fallanda fæti í skilningi samkeppnisréttar þá verði samkeppnisyfirvöld samt sem áður að kanna hvort önnur félög séu tilbúin til þess að taka yfir flugleiðir eða flugvélastæði WOW áður en kaupin verði samþykkt. Ekki sé sjálfgefið að Icelandair fái að eignast að fullu leiðir eða stæði WOW.

 Í því sambandi bendir Eggert á að Lufthansa hafi í fyrra þurft að gefa nokkur stæði eftir til þess að kaup félagsins á eignum Air Berlin hlytu náð fyrir augum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Sveinn Þórarinsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans, bendir á að samanlögð markaðshlutdeild flugfélaganna tveggja sé um 80 prósent á Keflavíkurflugvelli og „undir venjulegum kringumstæðum hefði maður haldið að eftirlitið legði ekki blessun sína yfir slíkt,“ nefnir hann.


Tengdar fréttir

Kaupin minnka hættuna á stóráföllum

Greinendur telja að kaup Icelandair Group á WOW air minnki líkurnar á því að íslensk ferðaþjónusta verði fyrir verulegum skakkaföllum í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×