Handbolti

Seinni bylgjan: Robbi og Aggi þurfa að fara aftur til Vestmannaeyja

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tölfræði Agnars Smára og Róberts Arons það sem af er tímabili er ekki upp á marga fiska
Tölfræði Agnars Smára og Róberts Arons það sem af er tímabili er ekki upp á marga fiska s2 sport
Róbert Aron Hostert og Agnar Smári Jónsson komu til Vals frá ÍBV í sumar. Þeir hafa ekki fundið sig á nýjum stað og áttu báðir mjög slæman leik þegar Valur tapaði fyrir Aftureldingu í Olísdeild karla um helgina.

„Þetta var ekki þeirra besti leikur. Agnar er búinn að vera heillum horfinn í vetur og Robbi er svo sem búinn að eiga mjög góða leiki inn á milli en í þessum leik voru þeir ekki með,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

„Róbert var pirraður og alltaf tuðandi. Þetta leit bara ekki vel út fyrir þá.“

„Þeir eru ekki að spila sama leik og þeir gerðu í Vestmannaeyjum. Kannski er of mikil samkeppni í Val,“ sagði Gunnar en þáttastjórnandinn Tómas Þór Þórðarson var ekki á því að taka það gilt, Agnar Smári væri bara með einn 12 ára að berjast um sína stöðu.

„Það var enginn örvhentur á móti honum í ÍBV,“ benti Gunnar þá á. „Eða eitt, sem ég held að sé rétt. Þeir verða bara að fara aftur til Vestmannaeyja. Þar líður þeim best.“

Logi Geirsson benti þá á að það væri erfitt að búa til lið úr svo mörgum sterkum leikmönnum.

„Þetta er liðsíþrótt og þetta þarf að fúnkera saman. Það þarf að finna styrkleika hjá hverjum og einum. Þetta hljómar kannski skringilega, en Valur með leikstjórnanda eins og Tuma Stein, ég held þeir væru töluvert betri þannig.“

„Valsmenn eru eiginlega heppnir að það sé komin pása núna.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×