Viðskipti erlent

Vafasamt að spjalla um hvað sem er

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Yfirmenn hjá Facebook hafa ítrekað lýst því yfir að fyrirtækið lesi ekki samtöl notenda.
Yfirmenn hjá Facebook hafa ítrekað lýst því yfir að fyrirtækið lesi ekki samtöl notenda. Vísir/Getty
Síðustu tvö ár hafa verið erfið fyrir Facebook og forstjórann Mark Zuckerberg. Ítrekað hafa komið upp hneykslismál um meðferð persónulegra upplýsinga. Zuckerberg hefur verið kallaður fyrir bandaríska þingið til þess að svara spurningum og toppar úr tæknigeiranum, til að mynda Tim Cook hjá Apple, hafa gagnrýnt starfshætti fyrirtækisins.

Sjá einnig: Mikilvægt að taka tillit til barnanna

Kjarni þessara hneykslismála er meðferð persónulegra upplýsinga og áróður, einkum í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar árið 2016. Eftirminnilegast þessara hneykslismála og líklega stærst er málið sem kennt er við Cambridge Analytica. Það snýst í grófum dráttum um að greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica sótti sér og nýtti persónuleg gögn Facebook-notenda til þess að hafa áhrif á kosningarnar, Donald Trump í hag.

Annað hneyksli leit svo dagsins ljós í september. Þá kom í ljós að óprúttnir aðilar nýttu sér öryggisgalla til þess að brjótast inn í aðganga tuga milljóna notenda.

Mikið hefur verið fjallað um hættuna sem felst í falsfréttum og áróðri á Facebook og um sölu Facebook á aðgangi að notendum til auglýsenda. Með öll þessi mál í huga er vert að velta fyrir sér því ótrúlega magni persónulegra upplýsinga sem er að finna á Facebook. Bæði upplýsingar sem eru fyrir allra augum og sérstaklega þær sem eru geymdar í samtölum notenda á milli.

Spjallað á Messenger

Blaðamaður gerði lauslega athugun og komst að því að á venjulegum degi fær hann og sendir þriggja stafa tölu skilaboða. Þar hefur blaðamaður rætt um flest á milli himins og jarðar.

En hversu vernduð eru samtöl á Facebook? Samkvæmt samfélagsmiðlinum er stuðst við sömu samskiptastaðla og tíðkast í bönkum og vefverslunum. Þá er einnig hægt að kveikja sérstaklega á dulkóðun fyrir samtöl sín. Geri maður það verða skilaboð dulkóðuð í báðar áttir. Það ætti að þýða að Facebook geti ekki einu sinni nálgast samtölin.

Yfirmenn hjá Facebook hafa ítrekað lýst því yfir að fyrirtækið lesi ekki samtöl notenda. Þó hefur Zuckerberg viðurkennt að fyrirtækið skanni myndir og hlekki sem sendir eru í gegnum Messenger til þess að tryggja að viðkomandi efni standist „samfélags - staðla“ miðilsins. „Kerfi okkar skynja hvað er í gangi. Við getum komið í veg fyrir sendingu svona skilaboða,“ sagði Zuckerberg í viðtali við Vox í apríl um sendingar skilaboða um þjóðarmorð á Róhingjum í Mjanmar.



Facebook hefur einnig sagt í svari við fyrirspurn Bloomberg að fyrirtækið nýti ekki samtöl notenda til þess að komast að því hvaða auglýsingum væri best að beina að þeim. Ekki eru allir sannfærðir um þessi orð og hafa fjölmargir tjáð sig á netinu um að hafa fengið auglýsingu um ákveðna vöru eftir að hafa rætt um vöruna í Messenger. Vitaskuld gæti þó verið um tilviljun að ræða.



Geta samtöl lekið?

Trúlega óttast mun fleiri að samtölum þeirra sé hreinlega lekið á netið en að einhverjir starfsmenn Facebook lesi skilaboðin sér til gamans. Fullyrða má að í skilaboðum flestra, ef ekki allra, notenda er að finna einhverjar upplýsingar sem þola illa dagsins ljós. Það gætu verið upplýsingar um sjúkdóma, afar viðkvæm leyndarmál, baktal, nektarmyndir og í rauninni hvað sem er.

Af þessum leka hefur ekki enn orðið. Hins vegar héldu margir notendur víða um heim því fram árið 2012 að gömul skilaboð væru sýnileg á tímalínu þeirra. Facebook fullyrti ítrekað að ekki væri um gömul skilaboð að ræða en notendur voru ekki sannfærðir.

En möguleikinn á því að einhver ráðist á Facebook er alltaf fyrir hendi. Ekki þyrfti að leka samtölum allra, enda væri það trúlega of mikill fjöldi skráa til þess að tölvuþrjótur gæti hlaðið þeim upp einn síns liðs. Hins vegar er öllu líklegra að lykilorðum notenda verði einhvern tímann stolið . Slíkt hefur til dæmis komið fyrir notendur Adobe, Adult Friend Finder, Ashley Madison, Bitly, BitTorrent, Comcast, Dailymotion, Dropbox, Epic Games, Forbes og League of Legends svo fátt eitt sé nefnt.

Öryggiskerfi Facebook er að öllum líkindum sterkara en hjá fyrrgreindum aðilum og því erfiðara að stela upplýsingum um lykilorð og notendanöfn. En notendum Facebook stafar einnig ógn af því að lykilorðum notenda annarra síðna sé stolið. Samkvæmt könnun LogMeIn frá því fyrr á árinu, sem gerð var víðs vegar um heim, nota 59 prósent fólks sama lykilorðið alls staðar. Sé því lekið á einum stað gæti óprúttinn aðili keypt sér aðgang að gagnabanka með lykilorðum sem lekið hefur verið og prófað lykilorð sem þar er að finna til að freista þess að komast inn á Facebook-aðgang viðkomandi einstaklings. Blaðamaður var til að mynda ekki nema örfáar mínútur að finna slíkan gagnabanka. Þar var hægt að greiða fyrir aðgang með rafmyntinni Bitcoin og fletta upp stolnum lykilorðum eftir tölvupóstföngum, notendanöfnum, símanúmerum og eftirnöfnum.

Að tryggja öryggi sitt

Til þess að minnka líkurnar á því að aðrir geti komist í samtöl manns á Facebook er hægt að grípa til ýmissa varúðarráðstafana. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að nota ekki sama lykilorð fyrir alla sína aðganga og í öðru lagi er gott að kveikja á svokallaðri tveggja þátta auðkenningu. Með henni er nauðsyn að staðfesta hverja nýja innskráningu með því að slá inn kóða sem notandi fær sendan í farsíma sinn.

En best er ef til vill að hafa í huga að það sem sent er í gegnum Messenger verður aldrei fullkomlega öruggt. Því ættu notendur að hafa í huga að ræða um viðkvæm málefni á öðrum vettvangi. Hvort sem það er einfaldlega undir fjögur augu eða í gegnum dulkóðuð og öruggari forrit á borð við Wickr eða Telegram.



Það sem Facebook veit um þig

Blaðamaður, sem hefur verið með aðgang að Facebook í um áratug, sendi inn beiðni um að allar upplýsingar sem Facebook hefur að geyma um notandann yrðu teknar saman. Nokkrum mínútum seinna fékk blaðamaður tilkynningu um að pakkinn væri tilbúinn til niðurhals. Í möppunni voru sex gígabæti af skrám. Alls voru skrárnar 18.137 í 2.271 möppu.

Í pakkanum mátti til að mynda finna netföng og símanúmer margra vina blaðamanns, auglýsingar sem smellt hefur verið á, öll ummæli sem blaðamaður hefur skrifað á Facebook og öll „læk“. Þá gat blaðamaður einnig séð allar vinabeiðnir, eydda vini, alla viðburði sem blaðamaður hefur fengið boð á og svör við þeim boðum, allar færslur, leitarsögu, innskráningarsögu, myndir og myndbönd og skráðar staðsetningar blaðamanns í hnitum.

Finna mátti, í auglýsingamöppunni, lista yfir „auglýsendur sem hafa hlaðið upp tengiliðalista með þínum upplýsingum“. Á þeim lista mátti finna erlend tæknifyrirtæki á borð við Airbnb og Massdrop, tölvuleikjaframleiðendur, Donald Trump Bandaríkjaforseta, Arion banka og Aur.

Mappan merkt „messages“ var þó langstærsti hluti gagnapakkans. Í henni voru 16.929 skrár í 2.236 möppum. Alls 5,76 gígabæt. Öll samskipti blaðamanns við aðra Facebook-notendur mátti finna í möppunni, svo lengi sem þeim hafði ekki verið eytt áður.



Kostir og ókostir Facebook

Henrý Alexander Henrýsson sérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur mikið skoðað umhverfi Facebook. Fréttablaðið fékk Henrý til að nefna fimm helstu kosti og galla við miðilinn.



Fimm kostir

  • Ókeypis, auðvelt að setja upp og einfalt í notkun. Hentar að því leyti öllum kynslóðum og fólki með ólíkan menntunarbakgrunn. Er samfélag þar sem jafnrétti ríkir varðandi aðgang.
  • Miðillinn gerir margs konar skipulagsvinnu félagslífs einfalda í framkvæmd (ef maður man eftir að bjóða líka þeim sem ekki eru á Facebook).
  • Fólk hefur tækifæri til að halda gömlum vinskap við, endurnýja kynni og jafnvel stofna til nýrra án mikillar fyrirhafnar.
  • Allir geta tjáð sig um menn og málefni – jafnvel fólk sem er þögult og óframfærið á samkomum og vinnustöðum
  • Geggjað auðvelt að póka vini sína (gera það annars ekki allir ennþá?)



Fimm ókostir

  • Það er einstakt að svona stórt samfélag verði til án þess að siðferði innan þess fái að þróast með. Tilraunir Facebook til að skrá reglur og láta nefndir og starfsmenn ákvarða hvað er ásættanlegt og hvað ámælisvert eru dæmdar til að mistakast.
  • Einokunartilburðir fyrirtækisins ættu að hringja viðvörunarbjöllum. Eðlileg samkeppnissjónarmið hafa gleymst og kominn tími til að stjórnvöld sýni valdþrek og brjóti fyrirtækið upp.
  • Nýleg dæmi hafa sýnt að Facebook er meiri ógn við lýðræði heldur en stoð. Þetta var fyrirsjáanlegt og átti ekki að koma á óvart.
  • Persónuvernd hefur aldrei verið í hávegum hjá fyrirtækinu. Í raun er ótrúlegt hvað fólk kom almennt af fjöllum nýverið þegar umræða skapaðist um þær persónuupplýsingar notenda sem skapa tekjugrundvöll fyrirtækisins.
  • Þótt það sé kannski ekki Facebook sjálfu að kenna þá er óþolandi að stofnanir og félög ætlist til þess að fólk sé í viðskiptum við bandarískt einkafyrirtæki. Það hefur í mörg ár verið fáránlega erfitt að ala upp börn í Reykjavík ef maður hefur ekki aðgang að Facebook.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×