Viðskipti innlent

Efast um að spá Icelandair gangi eftir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Icelandair Group tapaði 2,7 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins en félagið hafði ekki skilað tapi á fjórðungnum síðan 2010.
Icelandair Group tapaði 2,7 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins en félagið hafði ekki skilað tapi á fjórðungnum síðan 2010. Vísir/pjetur

Til þess að afkoma Ice­landair Group í ár verði í samræmi við spá stjórnenda félagsins þarf félagið að vinna mikinn varnarsigur á þriðja fjórðungi ársins. Markaðurinn virðist hins vegar ekki hafa trú á því að svo verði. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, um uppgjör Icelandair Group fyrir annan fjórðung ársins, sem birt var í fyrradag, en afkoma á fjórðungnum reyndist umtalsvert lakari en greinendur höfðu gert ráð fyrir.

„Félagið þarf að breytast,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, á fundi með fjárfestum í gærmorgun. „Það er ljóst að árið er snúið hjá okkur en við erum í endalausum aðgerðum til þess að reyna að breyta þessari niðurstöðu,“ nefndi forstjórinn.

Fjárfestar brugðust harkalega við uppgjöri ferðaþjónustufélagsins en til marks um það féllu hlutabréf í félaginu um 10 prósent í verði og ríflega 4,2 milljarðar af markaðsvirði þess þurrkuðust út í Kauphöllinni í gær.

Gengi hlutabréfanna nam 7,85 krónum á hlut við lokun markaða síðdegis í gær og hefur fallið um hátt í 80 prósent frá því það var hvað hæst í apríl árið 2016. Hefur virði félagsins lækkað á sama tíma úr 195 milljörðum króna í 38 milljarða.

Icelandair Group tapaði 25,7 milljónum dala, jafnvirði 2,7 milljarða króna, á öðrum fjórðungi ársins borið saman við 15,5 milljóna dala hagnað á sama tímabili í fyrra. EBITDA félagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – nam 14,7 milljónum dala á fjórðungnum og dróst saman um 64 prósent frá fyrra ári.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group

Í tilkynningu frá félaginu kom fram að þrýstingur á fargjöld, lakari sætanýting og einskiptiskostnaður vegna truflana í flugáætlun skýrðu verri afkomu á milli ára.

Sérfræðingur á fjármálamarkaði sem Fréttablaðið ræddi við segir að þrátt fyrir að fjárfestar hafi búist við slæmu uppgjöri – í ljósi þess að félagið lækkaði afkomuspá sína fyrir árið um 30 prósent í síðasta mánuði – þá hafi rekstrarniðurstaða annars fjórðungs komið markaðinum í opna skjöldu.

„Uppgjör Icelandair olli vonbrigðum,“ segir Stefán Broddi, „og afkoman reyndist enn lakari en væntingar markaðarins stóðu til.“ Það komi kannski spánskt fyrir sjónir þar sem félagið hafi nýverið fært afkomuspá sína niður.

„Afkoman á öðrum ársfjórðungi, ytri aðstæður og skilaboð stjórnenda samhliða uppgjörinu leiða til þess að miklar efasemdir virðast uppi um að félagið nái yfirhöfuð að skila þeirri afkomu yfir árið í heild,“ bætir Stefán Broddi við.

Segja allt þurfa að ganga upp

Hagfræðideild Landsbankans segir í skeyti til viðskiptavina sinna að svo virðist sem „allt þurfi að ganga upp“ til þess að afkoma félagsins í ár verði í efri mörkum afkomuspár stjórnenda þess, en stjórnendurnir gera ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 120 til 140 milljónir dala. Erfitt sé að sjá að því markmiði verði náð. Telja greinendurnir líklegt að stjórnendur Icelandair Group geri ráð fyrir „góðum hækkunum“ á flugfargjöldum á seinni hluta ársins.

Björgólfur nefndi á fundinum að verð á þotueldsneyti, sem er næststærsti kostnaðarliður félagsins, hefði hækkað um ríflega 60 prósent á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefðu fargjöld farið hratt lækkandi á mörgum mörkuðum félagsins, sér í lagi á markaðinum fyrir flug yfir Norður-Atlantshafið. Núverandi aðstæður gætu vart haldist óbreyttar.

„Við reiknum með því að til framtíðar muni meðalfargjöldin fara upp á við,“ sagði hann. „Það er mikil umræða um það á meðal stórra félaga sem starfa á Atlantshafinu að meðalfargjöld séu of lág.“

Að sama skapi sagðist hann telja að til lengri tíma myndi gengi krónunnar veikjast frá því sem nú er sem hefði jákvæð áhrif á afkomu félagsins.


Tengdar fréttir

Færsluhirðar skilgreina áhættu gagnvart Icelandair og Wow Air með ólíkum hætti

Færsluhirðingarfyrirtæki skilgreina áhættu gagnvart íslensku flugfélögunum með mismunandi hætti. Í tilviki Icelandair skilar fjárhæð fargjalds sér yfirleitt strax inn á reikninga félagsins. Í tilviki Wow Air halda færsluhirðingarfyrirtækin eftir 80-90 prósent af upphæðinni þangað til viðkomandi flugferð hefur verið farin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SKEL
2,82
16
165.445
MARL
1,53
19
839.859
FESTI
1,29
8
129.673
REGINN
0,97
6
42.187
REITIR
0,91
13
330.968

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
KVIKA
-1,99
5
41.060
VIS
-1,26
2
61.531
SJOVA
-0,85
4
78.408
GRND
-0,84
3
1.237
TM
-0,76
3
28.240
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.